Margrét Hrund Arnarsdóttir frumkvöðull á sínu sviði fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði Haga, Uppsprettunni í lok síðasta árs, fyrir fyrirtækið sitt Fjölskyldubúið ehf. fyrir þróun sína og gerð á heilsusamlegum drykk og koma honum á markað. Hér er á ferðinni skyrdrykkur með fjórum mismunandi bragðtegundum og er ofur hollur.
Margrét er menntuð viðskiptafræðingur frá HÍ og er framkvæmdastjóri Hreppamjólkur en hún er fædd og uppalin í Gunnbjarnarholti þar sem Fjölskyldubúið er starfrækt. Hún hefur því víðtæka þekkingu á því að vinna í mjólkurbúi og þekkir mjólkurafurðir vel.
Segðu okkur aðeins frá tilurð að þess að þú fórst í þetta verkefni?
„Ég skrifaði lokaritgerð í viðskiptafræðideild við Háskóla Íslands árið 2020 fyrir Fjölskyldubúið ehf., en þar kannaði ég hvort að það væri arðbært að hefja sölu á gerilsneyddri, ófitusprengdri mjólk í sjálfsölum. Pabbi, Arnar Bjarni Eiríksson, hafði legið með þessa hugmynd í mörg ár og því var tilvalið að samtvinna það við námið. Við héldum svo áfram með verkefnið árið 2021, en þá hófst starfsemi Hreppamjólkur. Í desember 2021 hófst formleg sala á Hreppamjólkur afurðum. Hreppamjólk er vörumerki Fjölskyldubúsins og sérhæfir sig í að koma með mjólkurnýjungar á markað, en í dag eru seldar 8 vörutegundir. Við sáum fljótlega að fólk var forvitið um þessa starfsemi og margir að kalla eftir vörum án viðbætts sykurs. Úr því varð Hreppa skyrdrykkur með fjórum mismunandi bragðtegundum, allar án viðbætts sykurs,“ segir Margrét.
Hvaðan kemur hugmyndin að vörunni og hvernig þróaðist hún áfram?
„Við erum að uppfæra okkur úr handverki í höndum upp í heila pökkunarlínu. Til þess að samnýta sömu vélina fyrir allar vörurnar horfðum við í heilsusamlegan drykk, upp frá því fórum við að kynna þessa vöru á matarmörkuðum og öðrum kynningum og höfum fengið jákvæð viðbrögð. Okkar markmið er að heilsuefla Ísland enn frekar og vill Hreppamjólk vera virkur þátttakandi, en fyrirtækið er í sterkri stöðu til þess að minnka sykurinntöku landsmanna með því að minnka eða útrýma viðbættum sykri í sínum vörum. Skyrdrykkurinn yrði því einstaklega hentugur fyrir ung börn sem eru að byrja að borða fasta fæðu, og getum við því lagt okkar að mörkum að stuðla að heilbrigðari kynslóðum á komandi árum auk þess sem að auðvelt er að grípa þetta með sér á ferðinni eða jafnvel hella í skál og setja eitthvað gott ofan á eins og múslí.“
Hver er sérstaðan?
„Sérstaða okkar er fyrst og fremst ófitusprengda mjólkin en rannsóknir hafa sýnt fram á að ófitusprengd mjólk geti hentað betur fyrir fólk með laktósaóþol, en fitusprenging breytir fitunni í örsmáar agnir sem fara beint í gegnum bragðlaukana án þess að þú takir eftir henni, og því er ófitusprengd mjólk bragðmeiri. Mjólkin okkar er einnig fitumeiri heldur en þessi hefðbundna þar sem að við styðjumst við meðaltal Fjölskyldubúsins. Skyrdrykkurinn inniheldur engan viðbættan sykur en það er okkar markmið að hafa vörurnar sem heilsusamlegastar. Með þessu erum við einnig að auka fjölbreytileika á drykkjarvörum úr mjólkurafurðum sem getur verið þægilegt í hröðu samfélagi eins og Ísland er.“
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hafa fengið styrkinn frá Uppsprettu?
„Það gaf okkur kraft í að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á, og þá sérstaklega þar sem við erum á ákveðnum tímamótum að færa allt í pökkunarlínu sem mun auka framleiðslugetu okkar margfalt. Uppsprettu styrkurinn gefur okkur einnig færi á að komast í nálægð við enn dreifðari markhóp, og þróa vöruna í takt við það. Okkar markmið er að neytandinn neyti mjólkurafurða sem eru sem næst uppruna sínum og því höldum við fast í að allar okkar vörur séu ófitusprengdar og rekjanlegar beint í Fjölskyldubúið,“ segir Margrét og bindur vonir við að Hreppa skyrið verði komið í verslanir Hagkaups í mars/apríl á þessu ári.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér á þessum vettvangi?
„Á þessum markaði er hörð samkeppni en með meiri umræðu um mikilvægi landbúnaðar hérlendis horfum við björt á framtíðina. Það er hins vegar sláandi hvað neysla mjólkurafurða hérlendis hefur dregist saman síðustu ár, og er okkar markmið að reyna að snúa því við þar sem að það er marg búið að rannsakað að mjólk er ein næringarríkasta einstaka fæðutegundin sem völ er á. Það er okkar mat að árangursríkasta aðferðin við að minnka kolefnisspor sitt sem einstaklingur er að neyta þeirrar fæðu sem framleidd er í nærumhverfi og eða á Íslandi.“
Áttu eftir að þróa fleiri vörur?
„Já, alveg klárlega, við erum byrjuð að fikta við nokkrar vörur, svo er bara spurning hvað af því ratar á markað, en við reynum að framleiða heilsusamlegar og sem minnst unnar vörur. Það þarf svo bara að koma í ljós hvort að markaðurinn kalli á heilsusamlegri valkost á mjólkurvörum,“ segir Margrét er full orku til að halda áfram á sömu braut.