Að borða litríkt og ferskt!

Oddrún Helga Símonardóttir leggur áherslu á hollan og litríkan mat …
Oddrún Helga Símonardóttir leggur áherslu á hollan og litríkan mat og hefur haldið ófá matreiðslunámskeið gegnum tíðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsumamman Oddrún Helga Símonardóttir veit sitthvað um hollustu. Hún er með matreiðslunámskeið á netinu sem kemur fólki í gang á nýju ári.

Nýja árið hefst hjá mörgum á hollustu og meiri hreyfingu eftir hátíðirnar. Margir setja sér það markmið að huga betur að heilsunni og er þá mataræðið það fyrsta sem fólk þarf að endurskoða. Þó að hreyfing sé okkur nauðsynleg skiptir miklu máli fyrir kroppinn að hann fái góða og holla næringu og minna af vondri fitu og sykri.

Oddrún hefur í áratug þróað matreiðslunámskeið og uppskriftir sem eiga það sameiginlegt að hollustan er þar í fyrirrúmi.

Í eldhúsinu heima

Eftir nám í heilsumarkþjálfun byrjaði Oddrún að bjóða upp á matreiðslunámskeið í eldhúsinu heima. Í kjölfarið fór hún víða með námskeið en eftir covid hóf hún að bjóða upp á netnámskeið sem hafa verið vinsæl.

„Nú er ég með námskeið á netinu þar sem við tengjumst með zoom eða facebook live og allir eru að elda heima í eldhúsinu hjá sér. Þetta fyrirkomulag byrjaði í covid en ég hef haldið því áfram því það reyndist svo vel og þá getur líka öll landsbyggðin mætt á námskeið. Nú er ég að bjóða upp á fjögurra vikna námskeið þrisvar á ári. Fyrir utan netnámskeiðin hafa namminámskeiðin líka verið vinsæl hjá fyrirtækjum, hópum og saumaklúbbum,“ segir hún og segist einmitt vera að byrja með nýtt námskeið í dag, sunnudag.

„Í raun kviknaði áhuginn hjá mér fyrir meira en áratug þegar dóttur minni leið alltaf svo illa en hún var með mikið mjólkuróþol, exem í húð og meltingin í ólagi. Ég sá þá að maturinn hafði meiri áhrif en maður áður trúði. Mér fannst á þeim tíma lítið talað um þessi mál og ekki til mörg matarblogg sem væru með heilsuuppskriftir, heldur voru bloggin þá meira „gourmet“ með rjóma og osti,“ segir Oddrún og segist hafa leitað þá meira í erlendar síður.

„Við tókum svo mataræðið í gegn og dóttur minni fór að líða betur,“ segir Oddrún sem í kjölfarið opnaði sjálf heimasíðuna heilsumamman.com. Þar má finna uppskriftir og fróðleik, auk upplýsinga um námskeiðin.

Borðið alvörumat!

Á heimili Oddrúnar er áhersla lögð á ferskt hráefni, góð krydd og litríkan mat.

„Í dag eldum við ótrúlega fjölbreyttan mat. Við eldum mest frá grunni og ég nota mikið krydd og ferskar kryddjurtir, hvítlauk og engifer. Ég komst að því fyrir sex árum að ég er með glútenóþol og ein dóttir mín er grænmetisæta þannig að við erum að brasa ýmislegt,“ segir hún og hlær.

Hvaða ráð gefur þú fólki sem vill bæta mataræðið?

„Það er mikilvægt að borða alvörumat en ekki unnar vörur. Í janúar er rosagott að elda góðar súpur og pottrétti sem eru fullir af grænmeti og svo má ekki gleyma að drekka nóg af vatni og mér finnst fínt að fá mér jurtate. Svo er góð regla að borða litríkt því margir sem ætla að taka sig á fara oft í mikið af mjólkurvörum og unnum tilbúnum prótínvörum. Betra er að borða fjölbreytt og mikið af grænmeti og ávöxtum; litríkt og ferskt!“

Ljúffengt lambagúllas.
Ljúffengt lambagúllas. Ljósmynd/Oddrún Helga

Ljúffengt lambagúllas

Fyrir 5

  • 1 msk. hitaþolin olía
  • 600-700 g lambagúllas
  • 1 msk. paprikukrydd
  • 1 msk. óreganó eða ítölsk kryddblanda
  • 2-3 tsk shawarma-krydd frá Kryddhúsinu
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 laukur smátt saxaður 3-4 gulrætur í sneiðum
  • 2 sellerístilkar smátt saxaðir
  • 4 dl vatn
  • 1-2 grænmetis-
  • teningar
  • 2 msk. tómatmauk (paste)
  • 2 tsk. kókospálmasykur (má sleppa)
  • 1 dl kókosmjólk eða laktósafrír rjómi
  • Smakkið til með salti og pipar

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti.
  2. Setjið kjötið í pottinn ásamt kryddinu og steikið í smá stund við lágan hita.
  3. Bætið lauk og hvítlauk saman við og brúnið aðeins.
  4. Bætið við vatni/soði og grænmetisteningi ásamt tómatmauki og látið malla við lágan hita í u.þ.b. 1 klukkustund.
  5. Bætið við vökva ef þörf er á.
  6. Bætið grænmetinu saman við.
  7. Leyfið réttinum að malla rólega í 20 mínútur.
  8. Bætið kókosmjólk eða rjóma saman við og bragðbætið með salti og pipar.
  9. Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum eða kínóa og fersku salati.
Lítur girnilega út þessi karrí- og kókossúpa.
Lítur girnilega út þessi karrí- og kókossúpa. Ljósmynd/Oddrún Helga

Karrí-kókossúpa

Fyrir 5

  • 1 msk. hitaþolin olía
  • 2 hvítlauksrif
  • 1-2 msk. taílenskt karrí frá Kryddhúsinu
  • 8 dl kókosmjólk (2 dósir)
  • 2 tsk. kókospálmasykur (má sleppa)
  • 600 ml vatn og 2x grænmetisteningur
  • 1 msk. tamarisósa
  • 3-4 meðalstórar gulrætur og 1 rauð paprika skornar í strimla
  • 2 stilkar sellerí smátt skorið
  • ⅓ haus af hvítkáli skorið í strimla
  • (það má bæta við meira grænmeti t.d. brokkólíi)
  • safi af 1 límónu (byrjið á helmingnum og smakkið áður en þið bætið seinni helmingnum saman við)
  • Ef þið eruð með fersk krydd við höndina er mjög gott að setja væna lúku af steinselju, basilíku eða kóríander með.
  • Veljið prótín til að setja í súpuna: t.d. soðinn fisk, rækjur, kjúkling eða linsubaunir (það er miðað við að það sem er sett út í sé eldað svo það er mjög sniðugt að nota afganga).

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti og bætið lauk, hvítlauk og kryddi út á.
  2. Leyfið því að hitna vel.
  3. Bætið afganginum af hráefnunum saman við og leyfið súpunni að malla létt í 5-10 mínútur og bætið þá við prótíni að eigin vali (má líka bæta því út í hverja skál eftir á).
  4. Þessi súpa verður enn betri ef hún fær að malla lengi.
  5. Það er góð hugmynd að búa til súpuna, slökkva undir og leyfa henni að standa á hellunni í 1-2 klukkustundir og þá verður hún virkilega bragðgóð.
Döðluklattarnir kitla bragðlaukana.
Döðluklattarnir kitla bragðlaukana. Ljósmynd/Oddrún Helga

 

Stökkir döðluklattar

  • 100 g súkkulaði
  • 3,5 dl döðlur, skornar í 2-3 bita hver
  • ½ dl saxaðar heslihnetur eða aðrar hnetur eða möndlur

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaði.
  2. Skerið döðlurnar í bita og setjið ofan í skálina þar sem súkkulaðið er.
  3. Blandið hnetunum saman við og veltið þeim líka upp úr súkkulaðinu. S
  4. kreytið með kókosmjöli, lakkrísdufti, pistasíum eða einhverju öðru eftir smekk.
  5. Kælið og skerið eða brjótið í bita.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka