Uppáhaldskryddkakan hennar ömmu

Girnileg kryddkaka bökuð á gamla mátann sem passar vel með …
Girnileg kryddkaka bökuð á gamla mátann sem passar vel með helgarkaffinu á þorranum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og hefð er fyr­ir er upp­skrift fyr­ir helgar­bakst­ur­inn á föstudagsmorgnum og að þessu sinni kemur uppskriftin í smiðju Guðrúnar Erlu Guðjónsdóttir bakara að kryddköku sem fullkomið er að bjóða upp á með helgarkaffinu.

Guðrún er 23 ára gömul og er í konditornámi í Danmörku og klárar í ágúst. Hún starfar sem konditornemi í Mosfellsbakarí og hef unnið þar síðan árið 2018.

Það eru búnar að vera miklar annir hjá Guðrúnu síðastliðnar vikur og mánuði þar sem hún er í óðaönn að klára sveinsprófið sitt. 

„Ég er einmitt að fara út núna til Danmerkur og að ljúka næstsíðustu önninni minni við skólann sem eru þrjár vikur. Annars er ég á fullu að undirbúa mig fyrir sveinsprófið sem ég tek í ágúst.“

Uppáhalds bakkelsið hjá ömmu minni

Guðrún deilir hér með lesendum uppskrift að kryddköku sem hún fékk frá góðum vini sínum. „Þetta er uppáhalds bakkelsið hennar ömmu minnar, og mér datt einmitt í hug að gera þessa uppskrift og fara síðan með kökuna til hennar í smá kaffi og spjall. Þessa uppskrift gaf góður vinnufélagi minn mér sem er hættur að baka í dag. Áður en hann hætti að vinna gaf hann mér heilan helling af sínum gömlu uppskriftum. Þetta er ein af þeim mörgum sem ég fékk frá honum,“ segir Guðrún sem nýtur þess að baka og gleðja fólkið sitt og viðskiptavini með nýbökuðu bakkelsi og kræsingum.

Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari á heiðurinn af þessari dásamlegu kryddköku …
Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari á heiðurinn af þessari dásamlegu kryddköku sem hún bakaði fyrir ömmu sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kryddkaka

1 formkaka

  • 220 g sykur
  • 200 g vatn
  • 1/4 bolli síróp
  • 1 tsk. natron
  • 1/2 tsk. negull
  • 1/2 tsk. kanill
  • 1/4 tsk. engifer
  • 2 stk. egg
  • 80 g smjörlíki
  • 240 g hveiti

Til skraut ef vill:

  • Hakkaðar heslihnetur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 175°C hita.
  2. Hitið smjör, vatn og síróp saman í potti.
  3. Blandið öllum þurrefnum saman og hellið smjörblöndunni saman við. 
  4. Blandið þessu með spaða þangað til að blandan er kekkjalaus.
  5. Brjótið síðan eitt og eitt egg út í og blandið þar til þetta er slétt og fallegt.
  6. Setjið deigið í formköku-form og inn í ofn.
  7. Bakið við 175°C hita í 40 til 50 mínútur.
  8. Guðrún stráði hökkuðum heslihnetum yfir til að skreyta kryddkökuna aðeins, en það má líka sleppa því skrefi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert