Húsó-grillpinnar sem létta lundina

Húsó-grillpinnnarnir eru girnilegir með grískri jógúrtsósu, fersku salati og grjónum.
Húsó-grillpinnnarnir eru girnilegir með grískri jógúrtsósu, fersku salati og grjónum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og hefð er fyr­ir á laug­ar­dags­morgn­um á mat­ar­vef mbl.is þá er það Húsó-upp­skrift úr hinu fræga eld­húsi í Hús­stjórn­ar­skól­an­um við Sól­valla­götu en þar eru mörg leynd­ar­mál geymd sem snúa að mat­ar­gerð og bakstri. Að þessu sinni deil­ir skóla­meist­ar­inn Marta María Arn­ars­dótt­ir upp­skrift að girnilegum grillpinnum, annars vegar með nautakjöt og grænmeti og hins vegar með svínakjöti og grænmeti. Marta María mælir með að bera grillpinnanna fram með fersku salat með ristuðum sólblómafræjum og grískri jógúrtsósu með kryddi.

Þegar Marta María er spurð hvort það sé ekki of mikil bjartsýni að grilla þessa dagana miðað við veðurfar segir hún svo ekki vera. Nú sé einmitt lag að lífga upp á tilveruna og skella kjöti á grillið og fara í Pollýönnu leik. Ímynda sér að sumarið sé að koma og létta lundina.

Er ekki lag að láta sem sumarið sé í nánd …
Er ekki lag að láta sem sumarið sé í nánd og skella kjöti á grillið? Það má láta sig dreyma. mbl.is/Kristinn Magnússon

Húsó-grillpinnar

Fyrir 4

  • 500 g maríneraður nautavöðvi, nautalund eða file snyrt og skorið í bita (uppskrift að kryddleginum hér fyrir neðan)
  • 500 g maríneruð svínalund snyrt og skorin í bita (uppskrift að kryddleginum hér fyrir neðan)
  • 1 pk kokteilpylsur eða skornar pylsur.
  • 1 bréf beikon, ½ sneið vafin utan um pylsurnar.
  • 1 gul paprika, skorin bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • Ananas skorinn í bita, magn eftir smekk
  • 1 stk. rauðlaukur skorinn í báta
  • 250 g sveppir skornir í bita
  • 1 box kokkteiltómatar

Kryddlögur á svínakjöt

  • 2 msk. góð olía
  • 4 tsk. Dijon sinnep
  • 2 hvítlauksrif, söxuð/marin
  • ½ tsk. timían
  • nýmalaður svartur pipar eftir smekk
  • 3 msk. BBQ sósa (orginal)

Kryddlögur fyrir nautakjöt

  • 4 msk. góð olía
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. rósmarín
  • Nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að marínera kjötið og látið liggja í maríneringunni í klukkustund.
  2. Raðið hráefninu á grillpinna með grænmetinu, gerið annars vegar grillpinna með nautakjöt og hins vegar með svínakjöti.
  3. Grillið á útigrilli eða í bakarofni stillt á grillstillingu.
  4. Athugið svínakjötið þarf lengri eldunartíma en nautakjötið.
  5. Berið grillpinnanna fram með góðu fersku salati með ristuðum sólblómafræjum, soðnum villihrísgrjónum og jógúrtsósu. 

Grísk jógúrtsósa m/kryddi

  • 300 g grísk jógúrt
  • 2 msk. majónes
  • 1 ½ msk. hlynsíróp
  • 1  msk. sítrónusafi
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn
  • 2 tsk. óreganó
  • 1 tsk. timian
  • Salt og nýmalaður pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið vel saman.
  2. Setjið í kæli í minnsta kosti klukkustund. 

Ristuð sólblómafræ á ferskt salat

  • 100 g sólblómafræ
  • 1 msk. tamarisósa

Aðferð:

  1. Hitið þurra pönnu vel, ristið fræin á pönnunni þar til þau hafa fengið gylltan lit hreyfið þau reglulega á pönnunni.
  2. Hellið tamarisósunni á pönnuna og látið hana síast inn í fræin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert