Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi og arkitekt, ávallt er kölluð Magga Leifs, notar sína styrkleika og gefur af sér til að ná markmiðum sínum sem er að lifa áreynslulausu, heilsusamlegu og ánægjulegu lífi. Hún hefur haldið fjölda heilsunámskeiða og fyrirlestra um mataræði og heilbrigðan lífsstíl. Hér eru hugleiðingar Margrétar um tilfinningalegt samband okkar við mat sem eru afar áhugaverðar og vert að staldra við og lesa.
Við vitum öll hvað við eigum að borða þannig að okkur líði vel. Við vitum líka alveg hvernig við eigum að hegða okkur þannig að okkur líði vel. Samt gengur okkur oft svo illa að fara eftir því sem við vitum.
Af því að við erum tilfinningaverur og það er fullt af tilfinningum sem okkur þykja óþægilegar og okkur langar ekki að finna fyrir. Sem dæmi; höfnun, minnimáttarkennd, reiði, afbrýðisemi og ótti. Síðan er fullt af jákvæðum tilfinningum sem við elskum að finna fyrir eins og gleði, sigurvíma, ást, væntumþykja og fleiri. Við notum mat til að deyfa „neikvæðar“ tilfinningar eða auka „jákvæðar“ tilfinningar.
Ef þú hugsar um það þá er matur líka mjög félagslegt fyrirbæri og þegar við komum saman til að gleðjast þá er matur oft í lykilhlutverki. Enda mjög gaman að hittast og borða góðan mat saman. En hvað gerist þegar við uppgötvum að við erum of oft að nota mat til að deyfa „neikvæðar“ og „jákvæðar“ tilfinningar? Er þá skynsemin ekki lengur við völd? Hafa mögulega tilfinningar okkar tekið yfir og stjórna því sem við borðum?
Gæti verið að það sé aðalástæða þess að það er erfitt að fara eftir því sem við vitum að er gott fyrir okkur?
Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hefur það sem við stingum gafflinum í, gríðarlega mikil áhrif á líðan okkar bæði andlega og líkamlega. Meltingarvegurinn sendir mismunandi skilaboð til heilans eftir því hvað lendir í smáþörmunum.
Fyrsta skrefið er að veita athygli. Við getum spurt okkur, á það við hjá mér að deyfa oft tilfinningar með mat sem ég veit að gerir mér ekki gott. Held ég oft á uppáhaldssúkkulaðinu mínu og hugsa, „þú ert alltaf til staðar fyrir mig!“?
Ég geri það sjálf, en ekki oft og þegar ég geri það, þá geri ég það oftast meðvitað. Ég geri mér grein fyrir því að ég er annað hvort að deyfa ákveðna „neikvæða“ tilfinningu eða auka „jákvæða“ tilfinningu. Hvað ef við gætum borðað og hagað okkur í 80% tilfella þannig að við værum að gera líkamanum gott og 20 % þar sem við erum að nota mat til að deyfa eða auka tilfinningar með mat eða drykk sem við vitum að gerir okkur ekki gott? (Tek það fram að það er mjög mikilvægt að njóta 20 prósentanna í botn án alls samviskubits). Gæti það verið ásættanleg málamiðlun sem myndi halda okkur í góðu formi án þess að okkur finnist við vera að missa af „öllu því góða“ sem lífið hefur upp á að bjóða?
En þá þurfum við líka að rannsaka hvaða næring gerir okkur gott og hvaða næring gerir okkur ekki eins gott. Ég held að við vitum það í meginatriðum en stundum þarf að rannsaka nánar og stundum þurfum við líka að finna muninn, þegar við nærum okkur á þann hátt að líkaminn elski okkur til baka. Því ef við fáum verðlaun í formi mun betri líðan, þá er miklu auðveldara að leggja á sig að breyta venjum sínum.
Ein leið er að finna fyrir betri líðan og finna út hvað er rétta mataræðið fyrir þig, er að taka 10 daga hreint mataræði, þar sem þú nærir þig eingöngu á mat sem gerir okkur gott. Þá eru algengir ofnæmis- og óþolsvaldar teknir út og áhersla lögð á mat með einni innihaldslýsingu. 10 daga hreint mataræði reynir á því þá erum við tímabundið að taka út flestan þann mat sem við notum til að deyfa eða lyfta tilfinningum okkar. Þá neyðumst við til að sýna tilfinningahugrekki og leyfa okkur að upplifa neikvæðar tilfinningar og veita þeim athygli.
Tilfinningar geta verið dálítið eins og lítil börn, þær vilja fá athygli. Ef þær fá ekki athygli, þá hafa þær tilhneigingu til að hækka róminn, stækka, láta okkur bara ekki í friði. En ef við veitum þeim athygli og segjum „já ég heyri hvað þú segir, en ég hef bara ekki alveg tíma til að tala við þig núna“ Þá hafa þær tilhneigingu til að leysast upp.
„What we resist, persists“ er tilvitnun í svissneska geðlækninn Carl Jung (1875-1961). Því meira viðnám sem við veitum hugsunum okkar þeim mun meira fáum við af þeim. Þegar við uppgötvum á hvaða hátt tilfinningar okkar tengjast matnum sem við borðum, þá gengur okkur betur að feta hinn gullna meðalveg í góðri heilsu og fara eftir því sem við vitum innst inni.
Vert er að geta þess að fram undan er námskeið sem heitir 6+10 daga hreint mataræði sem gengur út á að taka 6 daga í undirbúning saman og taka svo 10 daga á hreinu mataræði, sem Margrét stendur fyrir. Á námskeiðinu rannsakar þú hvaða matur fer vel í þig og þannig getur þú hannað þitt persónulega mataræði í kjölfarið. Þú rannsakar líka hvernig tilfinningasamband þú átt við mat og færð stuðning til að breyta því til hins betra. Sjá frekari upplýsingar hér.