Þessa frumlegu og góðu rúllubrauðtertu er Ingunn Mjöll uppskriftahöfundur sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll búin að vera með í fórum sínum lengi og gerði loksins eitthvað í því og galdraði fram þessa góðu rúllubrauðtertu. Hún er með fetaosti, hráskinku og klettasalati sem er frábært sambland. Ingunn smakkaði hana fyrst kalda en setti svo hluta af henni inn í ofn daginn eftir og fyrir hennar parta þá kunni hún betur við hana heita. Hver og einn getur valið hvort hann vill gera.
Rúllutertubrauð með hráskinku, fetaosti og klettasalati
- 200 g mjúkur rjómaostur eða annar rjómaostur eftir smekk
- 1 dós sýrður rjómi (250 g)
- ½ - 1 dós/krukka fetaostur
- Rjómi til að þynna með, eftir smekk
- 1 pk af klettasalati, grófsaxað
- 1-2 bréf hráskinka
- Salt og svartur pipar eftir smekk
- Paprika til skrauts ef vill
Aðferð:
- Blandið rjómaosti, sýrðum rjóma og fetaosti saman og þynnið með rjómanum.
- Smakkið til með salti og pipar.
- Smyrjið blöndunni á rúllutertubrauðið, en skilið smá eftir til að nota til skreytingar.
- Það má alveg vera meira af klettasalatinu en Ingunn notaði það sem hún átti til.
- Grófsaxið klettasalatið og dreifið um helminginn af því yfir kremið.
- Leggið síðan hráskinkusneiðarnar yfir kremið og rúllið upp.
- Skreytið svo með kreminu og klettasalati og smá papriku ef vill.
- Berið brauðtertuna fram kalda og njótið eða hitið í stutta stund í ofni og berið fram heita.