Banana-kotasælulummur fyrir morgunglaða

Banana-kotsælulummurnar bragðast vel einar og sér en eru líka góðar …
Banana-kotsælulummurnar bragðast vel einar og sér en eru líka góðar með ferskum jarðarberjum og kotasælu svo fátt sé nefnt. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Morgunstund gefur gull í mund segir máltækið góða. Er þá ekki lag að eiga góða samverustund við matarborðið og snæða góðan morgunverð með fólkinu sínu? Ekkert betra en að bjóða sínum upp á góðan morgunverð áður en haldið er út í daginn og þessar dásamlegu banana-kotasælulummur sem koma úr smiðju Nönnu Rögnvaldar rithöfundar eiga vel við á morgunverðarborðinu. Nanna heldur úti uppskriftasíðunni Konan sem kyndir ofninn sinn þar sem hún deilir með fylgjendum sínum uppskriftum sem hún hefur sankað að sér gegnum árin. Vel er hægt að mæla með þessum lummur og hver og einn getur valið sér meðlæti eftir smekk. Vel þroskaðir bananar gera þessar lummur sætar og góðar og það er í rauninni ekki þörf á neinu með þeim. Gott getur verið að strá muldum hnetum yfir og jafnvel bjóða upp á meiri kotasælu eða sýrðan rjóma með ásamt ferskum jarðarberjum.

Banana-kotasælulummur

12 stk.

  • 2 vel þroskaðir bananar
  • 200 ml kotasæla
  • 50 g smjör, brætt, og meira til steikingar (einnig má nota olíu)
  • 2 egg
  • 1 tsk. vanilluessens
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ¼ tsk. salt
  • 100 g heilhveiti, eða eftir þörfum

Aðferð:

  1. Byrjið á því að mauka bananana í matvinnsluvél eða stappa þá með gaffli og bland kotasælunni saman við.
  2. Hrærði svo bræddu smjöri, eggi og vanillu saman við og síðan lyftidufti, salti og eins miklu heilhveiti og til þarf til að deigið verði hæfilega þykk.
  3. Látið deigið bíða smástund, þá mýkist heilhveitið og tekur betur upp vökvann úr deiginu svo að það gæti jafnvel þurft að þynna deigið aðeins áður en steikt er úr því, en þá bara með vatni.
  4. Bræðið aðeins meira smjör á pönnu og setjið deig á hana með matskeið eða lítilli ausu.
  5. Upplagt að gera 6-7 lummur í einu.
  6. Steikið lummurnar við meðalhita í um það bil 2 mínútur, eða þar til þær hafa tekið fallegan lit að neðan.
  7. Snúið þeim þá gætilega og steikið í um það bil 1 mínútu eða svo á hinni hliðinni.
  8. Takið þær af og steikið síðan annan skammt.
  9. Berið fram með því sem ykkur langar í og njótið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert