Ómótstæðileg „hraun“ súkkulaðikaka

Finnur Guðberg Ívarsson hefur náð langt í keppni bakara síðastliðin …
Finnur Guðberg Ívarsson hefur náð langt í keppni bakara síðastliðin tvö ár og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hæfileika sína í bakstri. Hann deilir með lesendum uppskrift að dýrðlegri súkkulaðiköku sem bráðnar í munni. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Guðberg Ívarsson, bakaranemi í Hótel- og matvælaskólanum í MK, býður upp á dýrðlega „hraun“-súkkulaðiköku fyrir komandi helgi sem á eftir að töfra matargestina upp úr skónum.

Finnur varð Íslandsmeistari ungra bakara á síðastliðnu ári, þá aðeins 18 ára gamall, sem er framúrskarandi árangur. Einnig gerðu hann og félagi hans sér lítið fyrir og hlutu fjórða sæti í heimsmeistarakeppni ungra bakara í Berlín í fyrra. Síðan hlaut Finnur viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í keppni í bakaraiðn á Evrópumóti iðn-, verk- og tæknigreina, Euroskills, sem haldin var í Gdansk í Póllandi í september síðastliðnum. Finnur er jafnframt í landsliði íslenskra bakara sem tók þátt heimsmeistaramóti bakara í München í vetur og náði flottum árangri. Loks tók Finnur þátt í keppninni um brauð ársins í ár og hreppti þriðja sætið fyrir brauðið sitt. Finnur er því búinn að afreka mikið í bakaraiðninni, aðeins 19 ára gamall.

Hraun-súkkulaðikakan hans Finns minnir óneitanlega á lítið, fallegt eldgos. Þetta …
Hraun-súkkulaðikakan hans Finns minnir óneitanlega á lítið, fallegt eldgos. Þetta er súkkulaðikaka með vanillukremi og ítölskum marens sem gleður matarhjartað. mbl.is/Árni Sæberg

Listrænar útfærslur sem gleðja augað

Finnur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hæfileika sína í bakstri og „pastry“-gerð. „Ég byrjaði mjög ungur að árum að vinna í bakaríi og fann ástríðu mína fljótt í bakstrinum. Mér finnst gaman að skapa, það er mikil listsköpun sem fylgir þessu fagi. Það er eitthvað sem ég elska að gera og það heillar mig sérstaklega mikið að vinna við þessar listrænu útfærslur sem gleðja bæði auga og munn,“ segir Finnur. Hraun-súkkulaðikakan er einmitt kaka sem gleður bæði augað og bragðlaukana og er gaman að bera fram á listrænan hátt. Hún minnir lítið eitt á eldgos þar sem súkkulaðið, vanillukremið og marensinn flæðir niður eins og hraun við hvern bita og ber því nafn með rentu.

Freistandi að horfa á súkkulaðið flæða fram úr kökunni.
Freistandi að horfa á súkkulaðið flæða fram úr kökunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Hraun“-súkkulaðikaka

6 stykki

  • 120 g smjör
  • 170 g suðusúkkulaði
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • 50 g púðursykur
  • Klípa af salti
  • 30 g hveiti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn að 230°C og stillið á blástur og penslið 8 cm postulínsform með smjöri og sigtið létt með hveiti.
  2. Þegar þessu er lokið er hægt að hefjast handa við að laga deigið.
  3. Setjið egg, eggjarauður og sykur saman í hrærivél og þeytið þar til blandan er orðin ljós og létt. Setjið á meðan smjör í pott og brjótið niður súkkulaði og setjið í skál.
  4. Um leið og smjörið fer að búbbla hellið því þá yfir súkkulaðið og blandið varlega við eggjablönduna og síðast hveitið og saltið.
  5. Þegar tími gefst er gott að þeyta kremið og geyma það síðan í ísskáp þangað til kakan er borin fram, vert er að hafa í huga að gott er að undirbúa kremið kvöldinu áður.
  6. Gott er að lesa leiðbeiningarnar hér fyrir neðan með uppskriftinni.
  7. Kökudeiginu er svo deilt í 6 postulínsform sem eru um 8 cm í þvermál.
  8. Bakið kökurnar síðan í 6-8 mínútur og leyfið þeim að kólna í 15 mínútur áður en þið veltið þeim úr formunum og berið þær fram.
  9. Á meðan kökurnar bakast er upplagt að laga ítalska marensinn samkvæmt uppskrift og leiðbeiningum hér fyrir neðan.

Þeytt vanillukrem

  • 1 blað matarlím
  • 70 g hvítt súkkulaði
  • 200 g rjómi
  • 8 g vanilludropar

Aðferð:

  1. Leggið matarlím fyrir vanillukremið í bleyti, í kalt vatn, í 10 mínútur.
  2. Sigtið síðan vatnið frá.
  3. Sjóðið rjóma og vanilludropa upp og hellið yfir súkkulaðið.
  4. Blandið síðan saman við matarlímsblaðið og kælið helst yfir nótt eða allavega í 5 klukkustundir.
  5. Einnig má skipta kreminu út fyrir súkkulaðiís.

Ítalskur marens

  • 2 eggjahvítur
  • 120 g sykur
  • 40 g vatn

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða upp sykur og vatn í 121°C hita en byrjið að þeyta eggjahvíturnar þegar sykursírópið fer að nálgast 105-110°C hita.
  2. Þegar sírópið er komið upp í 121°C er því hellt í eggjahvíturnar á miðlungshraða í mjórri bunu og þeytt þar til skálin er ekki lengur heit.
  3. Að lokum raðið þessu öllu á disk eins og hugur ykkar girnist.
  4. Hægt er að skreyta diskinn með ferskum berjum eins og hindberjum og skreyta kökuna með gullhúðuðu ætisskrauti eftir smekk líkt og Finnur gerir.
  5. Látið hjartað ráða för þegar kemur að framsetningunni.
  6. Síðan er bara að horfa á súkkulaðið flæða úr kökunni og njóta hvers bita í botn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert