Hefur þú smakkað Húsó-steikta fiskinn?

Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum við Sólvallagötu deilir uppskriftinni …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum við Sólvallagötu deilir uppskriftinni með lesendum að einum vinsælasta réttinum úr Húsó-eldhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Húsó-sjónvarpsþættirnir á RÚV njóta mikilla vinsælda þessa dagana og margir standa á öndinni hvað gerist næst í Húsó. Einn frægasti rétturinn sem hefur komið úr eldhúsinu í Húsó er steikti fiskurinn sem borinn er fram með heimagerða remúlaðinu. Algjört nammi þessi steikti fiskur og gefur lífinu lit. Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum opnaði leyniuppskriftabókina fyrir matarvefinn og deilir hér með lesendum uppskriftinni frægu að steikta fiskinum og remúlaðinu. Leyndardómurinn við þennan rétt er brauðmylsnublanda góða sem vert er að nota utan á fiskinn.

„Ef ég ætti að velja einn rétt sem ég þyrfti að borða á hverju kvöldi út lífið væri það líklega steiktur fiskur. Ég borða fisk tvisvar til þrisvar í viku, hann er einn hollasti matur sem maður kemst í og fer mjög vel í maga,“ segir Marta María. Allra best er að bera steiktan fiskinn fram með heimagerðu remúlaði að hætti Húsó ásamt soðnum kartöflum og fersku salati.

Steiktur fiskur með heimagerður remúlaði borinn fram með soðnum kartöflum …
Steiktur fiskur með heimagerður remúlaði borinn fram með soðnum kartöflum og ferskur salati nýtur mikilla vinsælda í Húsó. mbl.is/Árni Sæberg

Steikur fiskur með heimagerðu remúlaði

Fyrir 3-4

  • 600-800 g ýsa eða þorskur

Aðferð:

  1. Skerið fiskinn í hæfilega stóra bita.
  2. Veltið honum upp úr blöndunni og steikið samkvæmt leiðbeiningum hér fyrir neðan.

Brauðmylsnublanda fyrir steiktan fisk

  • 1 ½ dl brauðmylsna
  • 1 tsk. salt
  • ½ tsk. hvítur pipar
  • ½ tsk. karrí
  • 1 tsk. paprikuduft
  • 1 tsk. laukduft

Aðferð:

  1. Setjið allt í skál og blandið vel saman.
  2. Sláið sundur 2 egg með 2 msk. mjólk og veltið fiskinum fyrst upp úr eggjablöndunni og síðan raspinu.
  3. Steikið á pönnu í olíu með smá smjörklípu út í.
  4. Passið vel upp á hitann, þ.e. að hafa hann ekki of mikinn.

Heimagert remúlaði að hætti Húsó

  • 1 dl majónes
  • 1 dolla 18% sýrður rjómi (rauði)
  • 1-2 tsk. díjón sinnep
  • 3 msk. relis  boston gúrka í brúsa, örlítið karrí, pipar og laukduft
  • Smá hunang
  • Hægt er að bæta við saxaðri ferskri steinselju og blaðlauk eftir smekk 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman majónesinu, sýrða rjómanum og sinnepinu í skál.
  2. Bætið síðan við gúrkunni og kryddið til með kryddunum.
  3. Bætið síðan við ögn af hunangi.
  4. Loks getið þið bætt við ferskri steinselju og blaðlauk eftir smekk og ástríðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka