Það er komin helgi og þá er gaman að gera vel við sig í mat og drykk. Hörpuskel í sítrónusmjöri er einstaklega góð og auðvelt er að elda hörpuskelina. Þessi uppskrift að hörpuskel í sítrónusmjöri sem borin er fram á grilluð baguette-brauðsneið er ljómandi góð. Uppskriftin kemur úr smiðju samfélagsmiðlastjörnunnar Vesela Asenova sem kann svo sannarlega að koma bragðlaukunum á flug og allt sem hún gerir lítur út fyrir að vera svo einfalt og þægilegt eins og sjá má í myndbandi hér fyrir neðan. Uppskriftin er líka góður innblástur fyrir alls konar sjávarrétti og um að gera að leika sér með þessa uppskrift og gera hana að sínu. Svo er vert að velja drykk sem ykkur finnst eiga vel við með hörpuskel.
Safarík hörpuskel í sítrónusmjöri
Fyrir 2-3
- 500 g hörpuskel (afþídd tímanlega ef frosin)
- 1 ½ sítróna, safinn
- 3 hvítlauksrif
- 5 msk. smjör
- 1 msk. steinselja, söxuð
- ½ tsk. chilli-flögur
- Salt, eftir smekk
- Svartur pipar, eftir smekk
- 1 stk. baguette-brauð
- 1 lítill hvítlaukur, úr litlu körfunum, kraminn eða smátt saxaður, fyrir brauðið
- Ólífuolía eftir smekk
Aðferð:
- Þerrið hörpuskelina vel við afþýðingu, gott að leggja á eldhúspappír og leggja jafnframt pappírinn yfir til að draga í sig allan raka.
- Kryddið til með salti og pipar á báðum hliðum.
- Bræðið ½ matskeiðar. af smjöri og eldið hörpuskelina við meðalháan hita í 1-2 mínútur á hvorri hlið og setjið svo til hliðar.
- Hreinsið pönnuna og þerrið.
- Bræðið 3 matskeiðar af smjöri og steikið hvítlauk þar til hann verður hálfgagnsær; bætið við sítrónusafa, eldið í nokkrar mínútur og bætið við 1 matskeið af smjöri til viðbótar til að fleyta sósuna aðeins.
- Setjið hörpuskelina aftur á pönnuna ásamt öllum safanum og eldið í um það bil eina mínútu, rétt nóg til að hita hörpuskelina, kryddið með salt og pipar eftir smekk.
- Ljúkið matseldinni með því að krydda til með steinselju og chiliflögum.
- Skerið baguette-brauð í sneiðar, á ská, berið á það ólífuolíu og hvítlauk eftir smekk.
- Ristið á pönnu eða grillið í ofni.
- Setjið hörpuskelina ofan á baguette-brauðsneiðar og berið fram og njótið.