Eva Laufey þjófstartaði bolludeginum

Eva Laufey Kjaran ástríðubakari þjófstartaði bolludeginum um helgina og bauð …
Eva Laufey Kjaran ástríðubakari þjófstartaði bolludeginum um helgina og bauð upp á dýrindis bolluhlaðborð með bollum fylltum gómsætum kræsingum. Samsett mynd

Eva Laufey Kjaran, markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups og ástríðubakari, gerði sér lítið fyrir um helgina og þjófstartaði bolludeginum. Hún bauð upp á glæsilegt bolluhlaðborð með fjölbreyttu úrvali af bollum með alls konar fyllingum og góðgæti ofan á. 

Eva Laufey deildi líka með fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum skotheldri uppskrift að vatndeigsbollum sem hún lofar að klikki ekki. Það má með sanni segja að hún kunni vel til verka þegar töfra skal fram bollur sem laða að bæði auga og munn.

Vel er hægt að mæla með þessari uppskrift og myndbandið sem Eva Laufey deildi með fylgjendum sínum á Instagram-síðu sinni fylgir með.

Girnilegar bollurnar hennar Evu Laufeyjar.
Girnilegar bollurnar hennar Evu Laufeyjar. Ljósmynd/Eva Laufey

Vatnsdeigsbollur Evu Laufeyjar

10-12 stk.

  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 110 g hveiti
  • 3 stór egg

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C (blástur).
  2. Setjið vatn og smjör í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í tvær mínútur.
  3. Setjið hveitið út í og blandið vel saman þar til deigið er orðið mjúkt.
  4. Leyfið deiginu að kólna í nokkrar mínútur. Þið megið færa deigið yfir í hrærivélarskál á þessu stigi eða hræra áfram með höndunum.
  5. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli.
  6. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað nota skeiðar til þess að forma bollurnar.
  7. Bakið við 200°C í 25 mínútur. Það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum svo að bollurnar falli ekki.
  8. Kælið mjög vel áður en þær eru fylltar með gómsætum fyllingum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert