Íslenska kokkalandsliðið hreppti aðra gull einkunn í morgun fyrir keppnisgrein gærdagsins á Ólympíuleikunum í Stuttgart. Þá hefur liðið hlotið gulleinkunn fyrir báðar keppnisgreinarnar sínar á leikunum. Fyrri keppnisgreinin fór fram á sunnudag, „Chef´s table“, tólf manna borð með 11 rétta matseðli og seinni greinin sem fór fram í gær þriðjudag i þarf að afgreiða þriggja rétta matseðil fyrir 110 manns. Verðlaun fyrir heildar árangur verða kunngjörð síðar í dag.
Gulleinkun að þýðir að liðið skilaði meira en 91 stigi af 100 mögulegum fyrir greinina. Lokaniðurstöður úr heildarstigagjöf dómara leikanna eru hins vegar ekki birtar fyrr en seinni partinn í dag á lokaathöfn leikanna. Þá kemur í ljós hvaða þjóðir hreppa þrjú efstu sætin á leikunum í ár. Fimmtíu og fimm þjóðir eiga lið á leikunum.
Matarvefur mbl.is óskar íslenska kokkalandsliðinu innilega til hamingju með verðskuldaðan árangur.