Syndsamlega góðar ítalskar kjötbollur með pastaslaufum

Finnur Guðberg Ívarsson er ekki bara góður bakari heldur líka …
Finnur Guðberg Ívarsson er ekki bara góður bakari heldur líka góður í matargerð. Hann ætlar að bjóða upp á ítalskar kjötbollur á bolludaginn. Samsett mynd/Árni Sæberg

Bolludagurinn er á morgun og þá er lag að borða allt sem er með bollulögun, ekki bara rjóma- og sælgætisbollur heldur líka kjöt- og fiskibollur. Hér er ein uppskrift að syndsamlega góðar ítalskar bollur sem kemur úr smiðju verðandi bakara, hans Finns Guðbergs Ívarssonar. Finnur hefur mikið dálæti að nýta hráefnið vel og elda frá grunni. Bollurnar eru á ítalska vísu og bornar fram með heimagerðum pastaslaufum og pastasósu. Síðan er Finnur líka svo listrænn og ber matinn fram á fallegan og aðlaðandi hátt. Fjölhæfur í eldhúsinu hann Finnur.

Fullkomin máltið að njóta á bolludaginn, ítalskar kjötbollur með pastaslaufum …
Fullkomin máltið að njóta á bolludaginn, ítalskar kjötbollur með pastaslaufum og ljúffengri pastasósu. mbl.is/Árni Sæberg

Pastaslaufur   

  • 500 g hveiti    
  • 6 egg  
  • 1 tsk. salt        
  • 1 tsk. olía

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin fyrir pastað saman í hrærivél og hnoðið þangað til deigið hættir að klístrast við skálina, í um það bil 5-8 mínútur, það má líka hnoða í höndunum.
  2. Setjið deigið í poka eða plastfilmu og leggið í kæli til að hvíla í að minnsta kosti 1 klukkustund, helst lengur.
  3. Eftir að deigið er búið að hvíla, rúllið því þá út eins þunnt og mögulegt er helst þannig hægt sé að lesa í gegnum það.
  4. Skerið deigið síðan út í ferninga um það bil 3x5 cm og kremjið saman í miðjunni svo verði úr slaufa.
  5. Látið vatn bullsjóða og saltið vel og sjóðið pastað í um það bil 3-5 mínútur, fer eftir stærð slaufanna svo best að fylgjast bara vel með.

Ítalskar kjötbollur      

  • 700 g ungnautahakk  
  • 1000 g svínahakk       
  • 1 laukur, smátt skorinn          
  • 2 egg  
  • 50 g rauðraspur         
  • 10-12 fersk basilíkublöð
  • 2 tsk. óreganó
  • 1-2 tsk. salt
  • 1-2 tsk. svartur pipar
  • Auka brauðraspur utan á bollurnar 

Aðferð:

  1. Saxið laukinn og basilíkuna smátt fyrir kjötbollurnar.
  2. Setjið síðan allt hráefnið saman í hrærivél og hnoðið saman.
  3. Mótið og hnoðið 120 g bollur í auka brauðraspinum.
  4. Eldið bollurnar við 180°C hita í ofni í 20 til 30 mínútur.

Pastasósa                   

  • 2 dósir Polpa tómatar frá Mutti         
  • 25 g smjör      
  • 1 stk. laukur   
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 tsk. salt        
  • 1 stk. pipar     
  • 5-6 basilíkublöð
  • 2 tsk. óreganó

Aðferð:

  1. Steikið laukur og hvítlaukur upp úr smjörinu þar til laukurinn mýkist og bætið síðan við restinni að hráefninu og látið sjóða upp. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert