Matthías Jóhannesson er ástríðufullur bakari sem veit fátt skemmtilegra en gleðja aðra með ljúffengu bakkelsi og þar eru bollur engin undantekning. Hann tók forskot á sæluna og bakaði þessar fyrir fjölskylduna í vikunni en síðastliðin helgi var mjög annasöm hjá Matthíasi þar sem hann stóð í ströngu í bakaríinu Passion Reykjavík þar sem hann starfar.
„Í tilefni þess að bolludagurinn er í dag er vert að deila einni af uppáhaldsbolluuppskriftunum mínum með lesendum matarvefjarins. Ég hef verið mikill aðdáandi bolludagsins frá því ég man eftir mér og það minnkaði svo sannarlega ekki eftir að ég byrjaði að vinna í bakaríi. Þessi bolluuppskrift er frekar einföld og virkar einnig vel sem grunnuppskrift sem hægt er að breyta að eigin vild, t.d. er hægt að skipta út jarðarberjunum fyrir hindber og fyrir þá sem vilja einfalda sér lífið er lítið mál að skipta út vanillukreminu fyrir Royal-vanillubúðing,“ segir Matthías.
Marsbolla Matthíasar með vanillukremi og jarðarberjum lítur girnilega út.
Ljósmynd/Matthías Jóhannesson
Marsbolla með jarðarberjum og vanillurjóma
Vatnsdeigsbollur
15 bollur
- 110 g mjólk
- 110 g vatn
- 110 g smjör
- 10 g sykur
- ½ tsk. vanilludropar
- 130 g hveiti
- 5 g salt
- 4 egg
Aðferð:
- Hitið ofn í 200°C hita.
- Setjið mjólk, vatn, smjör og sykur saman í pott og hitið upp að suðu.
- Bætið hveiti og salti saman við og hrærið þar til allt er komið saman.
- Setjið deigið í skál.
- Hrærið eggjunum í nokkrum skömmtum saman við deigið þar til deigið er orðið slétt og fínt.
- Setjið deigið í sprautupoka með stjörnustút og sprautið í vænar doppur á pappírsklædda bökunarplötu.
- Bakið við 200°C hita í um það bil 20 mínútur eða þar til bollurnar eru fallega gylltar.
Vanillukrem
Má gera degi fyrir notkun
- 163 g mjólk
- ½ stk. vanillustöng
- 41 g sykur
- 2 eggjarauður
- 12 g maíssterkja
- 23 g smjör
Aðferð:
- Setjið mjólkina og fræin úr vanillustönginni saman í pott og hitið upp að suðu.
- Þeytið eggjarauður, sykur og maíssterkju saman á meðan mjólkin hitnar.
- Þegar mjólkin byrjar að sjóða hellið henni þá í mjórri bunu út í eggjablönduna og þeytið stöðugt á meðan.
- Setjið síðan þetta allt sett saman í pottinn og hitið við vægan hita og hrærið í blöndunni stöðugt þar til hún byrjar að þykkna.
- Takið þá pottinn af hitanum og leyfið að kólna aðeins áður en þið hrærið smjörinu saman við.
- Setjið kremið síðan í kæli, hyljið með plastfilmu og kælið í 1-2 klukkustundir eða þar til kremið er orðið alveg kalt.
Crème Diplomat
- 200 g þeyttur rjómi
- 260 g vanillukrem
- Samtals 460 g
Aðferð:
- Stífþeytið rjómann og blandið honum síðan varlega saman við vanillukremið.
Marssósa
Aðferð:
- Skerið marssúkkulaðið í litla bita og setjið í pott með rjómanum.
- Hitið þar til allt er bráðið og blandið vel saman.
Sykruð jarðarber
- 225 g jarðarber, smátt skorin
- 30 g sykur
- 10 g sítrónusafi
Aðferð:
- Jarðarberin eru sett í skál með sykrinum og sítrónusafanum, allt hrært saman þar til það er vel blandað og sykurinn byrjar að bráðna.
Samsetning
- Skerið bollurnar í sundur þegar þær hafa kólnað, sprautið þá diplomat-kreminu í neðri helming bollunnar og setjið jarðarberin ofan á kremið.
- Dýfið síðan efri helmingi bollunnar í marssósuna og hvolfið ofan á neðri helminginn.
- Gaman getur verið að skreyta bolluna með ferskum jarðarberjasneiðum.
Súkkulaðið er girnilegt á bollunni.
Ljósmynd/Matthías Jóhannesson