Sumir vilja síður borða saltkjöt og baunir og eru meira fyrir léttari súpur. Hér er ein ljúffeng, holl, trefjarík linsubaunasúpa sem er kjörin fyrir vandláta. Auk þess er hráefnið ódýrt og einfalt að laga súpuna. Heiðurinn af þessari linsubaunasúpu á heilsumarkþjálfinn Kristjana Steingrímsdóttir, alla jafna kölluð Jana, sem heldur út Instagram-síðunni @janast.
Þessi dásamlega linsusúpa er bráðholl og trefjarík.
Ljósmynd/Jana
Holl og trefjarík linsubaunasúpa fyrir vandláta
- 3 msk. ólífuolía
- 2 meðalstórar gulrætur
- 1 sellerístöngull
- 1 laukur
- 4 hvítlauksrif
- 2 bollar þurrkaðar linsubaunir, hreinsið í sigti með köldu vatni
- 1 msk. karríduft
- 1 msk. gullkrydd kryddblanda frá Kryddhúsinu
- 1 tsk. malað cumin (ekki kúmen)
- 1 tsk. þurrkað timian
- ½ tsk. salt
- 1 dós/krukka tómatpasata
- 6 bollar lífrænt grænmetissoð eða lífrænt kjúklingasoð
- Salt og pipar eftir smekk
- 2 handfylli af fersku spínati til að hræra í heitri súpunni
Aðferð:
- Byrjið á því að flysja og skera gulræturnar, sellerí og laukinn í litla bita.
- Setjið olíuna í pott og pressið hvítlauksrifin út í, blandið lauknum við og hitið á meðalháum hita í nokkrar mínútur.
- Setjið svo gulræturnar og selleríbitana út í, því næst allt krydd, grænmetis-/kjúklingasoðið, linsubaunirnar og tómata pasata.
- Hrærið vel saman og fáið suðuna til að koma upp.
- Lokið pottinum og lækkið hitann.
- Eldið og hrærið einstaka sinnum í þar til allt er vel blandað saman og linsurnar og grænmetið vel soðið saman.
- Hrærið fersku spínati saman við súpuna og berið hana svo fram í skálum og skreytið jafnvel með graskersfræjum og goji-berjum eða ferskum kryddjurtum að eigin vali.