Það er kominn fimmtudagur og þá er það eitthvað einfalt, hollt og gott. Kærkomið er að fá uppskriftir að máltíðum sem hægt er að setja saman á skömmum tíma og hér hafið þið sannarlega eina slíka. Hér er á ferðinni gómsætt taco með kjúklingi og gulum baunum sem tekur örstutta stund að töfra fram og uppskriftin kemur úr smiðju Berglindar Hreiðars, köku- og matarbloggara hjá Gotterí og gersemar. Sjáið Berglindi útbúa taco með kjúklingi á augabragði, en þetta er svo einfalt.
Tacos með kjúklingi og gulum baunum
8-10 litlar tortillakökur
Kjúklingatacos
- 1 pk. Ali Rodizio kjúklingalærakjöt
- 8-10 litlar tortillakökur
- 1 dós gular baunir (um 400 g)
- 2 laukar
- Romaine-salat eftir smekk
- Ferskt kóríander eftir smekk
- Salt og pipar eftir smekk
- Ólífuolía til steikingar
- Kóríander- og límónusósa (sjá uppskrift að neðan)
Aðferð:
- Skerið laukinn og kjúklinginn niður.
- Steikið lauk upp úr ólífuolíu þar til hann fer að mýkjast, saltið og piprið eftir smekk.
- Bætið þá gulum baunum og niðurskornum Rodizio-kjúklingi á pönnuna og steikið þar til allt er orðið heitt í gegn.
- Hitið tortillakökur, skerið niður salat og raðið salati og kjúklingablöndu á kökurnar. Toppið með kóríandersósu og ferskum kóríander.
Kóríander- og límónusósa
- 150 g grísk jógúrt
- 100 g sýrður rjómi
- 2 hvítlauksrif (rifin)
- 1 límóna (safi og börkur)
- 1 búnt kóríander (saxað smátt)
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Pískið allt saman í skál og smakkið til með salti og pipar.