Það ætti enginn að fara í gegnum vikuna án þess að fá sér unaðslega góðan brauðrétt. Á matarvefnum birtast reglulega uppskriftir að brauðréttum og þeir njóta ávallt mikilla vinsælda enda eru það brauðréttirnir sem klárast alltaf fyrst þegar þeir eru á boðstólum þegar veislur eru haldnar. Hér er nýjasti brauðrétturinn sem við höfum komist í snoðir um og kemur úr smiðju Ingunnar Mjallar sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll. Þetta er mexíkósk rúlluterta sem erfitt er að standast enda heitasti brauðrétturinn í dag. Þvílík sælkera rúlluterta sem mun sóma sér vel á næsta veisluborðið eða í saumaklúbbnum.
Mexíkósk rúlluterta
- 1 rúllutertubrauð
- 300 g kjúklingur, skorinn niður í bita (1 ½ bringa)
- Fajitas krydd, eftir smekk
- 1 rauð paprika, skorin í bita
- 100 g maískorn
- 200 g salsasósa (salsasósurnar í litlu krukkum 230 g, má nota alla)
- 200 g rjómaostur
- 200 g rifinn ostur
- Nachos flögur eða Doritos eftir smekk
- Ferskt kóríander
- ½ avókadó
- 1 límóna
Aðferð:
- Byrjið á að skera niður kjúkling og papriku og steikið á pönnu með smá olíu.
- Þegar kjúklingurinn er orðinn vel steiktur, bætið þá saman við maískornunum.
- Ef þið notið tilbúinn kjúkling þá tekur þetta styttri tíma.
- Bætið rjómaostinum saman við og salsasósunni og látið malla í smá stund.
- Saxið niður smá af ferskum kóríander og bætið saman við (má sleppa).
- Fletjið rúllutertubrauðið út á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreifið fyllingunni jafnt yfir, síðan ostinum.
- Rúllið brauðinu vel upp og setjið restina af salsasósunni og ostinum yfir.
- Stráið nachos flögum yfir í lokin eða raðið upp eftir smekk.
- Bakið í ofni við 180°C hita í um það bil 18-20 mínútur.
- Skreytið síðan með fersku kóríander, límónusneiðum og ferskum avókadósneiðum.
- Berið fram og njótið.