Heitasti brauðrétturinn í dag

Unaðslega góð mexíkósk rúlluterta sem á eftir að slá í …
Unaðslega góð mexíkósk rúlluterta sem á eftir að slá í gegn í næsta boði. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Það ætti eng­inn að fara í gegn­um vik­una án þess að fá sér unaðslega góðan brauðrétt. Á matarvefnum birtast reglulega uppskriftir að brauðréttum og þeir njóta ávallt mikilla vinsælda enda eru það brauðréttirnir sem klárast alltaf fyrst þegar þeir eru á boðstólum þegar veislur eru haldnar. Hér er nýjasti brauðrétturinn sem við höfum komist í snoðir um og kemur úr smiðju Ingunnar Mjallar sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll. Þetta er mexíkósk rúlluterta sem erfitt er að standast enda heitasti brauðrétturinn í dag. Þvílík sælkera rúlluterta sem mun sóma sér vel á næsta veisluborðið eða í saumaklúbbnum.

Mexíkósk rúlluterta

  • 1 rúllutertubrauð
  • 300 g kjúklingur, skorinn niður í bita (1 ½ bringa)
  • Fajitas krydd, eftir smekk
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 100 g maískorn
  • 200 g salsasósa (salsasósurnar í litlu krukkum 230 g, má nota alla)
  • 200 g rjómaostur
  • 200 g rifinn ostur
  • Nachos flögur eða Doritos eftir smekk
  • Ferskt kóríander
  • ½  avókadó
  • 1 límóna

Aðferð:

  1. Byrjið á að skera niður kjúkling og papriku og steikið á pönnu með smá olíu.
  2. Þegar kjúklingurinn er orðinn vel steiktur, bætið þá saman við maískornunum.
  3. Ef þið notið tilbúinn kjúkling þá tekur þetta styttri tíma.
  4. Bætið rjómaostinum saman við og salsasósunni og látið malla í smá stund.
  5. Saxið niður smá af ferskum kóríander og bætið saman við (má sleppa).
  6. Fletjið rúllutertubrauðið út á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreifið fyllingunni jafnt yfir, síðan ostinum.
  7. Rúllið brauðinu vel upp og setjið restina af salsasósunni og ostinum yfir.
  8. Stráið nachos flögum yfir í lokin eða raðið upp eftir smekk.
  9. Bakið í ofni við 180°C  hita í um það bil 18-20 mínútur.
  10. Skreytið síðan með fersku kóríander, límónusneiðum og ferskum avókadósneiðum.
  11. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert