Þessi grillaða samloka er alltof freistandi

Valgerðir Gréta Gröndal er búin að útbúa þessar rosalegu grilluðu …
Valgerðir Gréta Gröndal er búin að útbúa þessar rosalegu grilluðu samlokur sem erfitt er að standast. Samsett mynd

Hér eru á ferðinni uppskrift að grilluðum súrdeigssamlokum með beikoni, brie og sultuðum balsamik lauk sem trylla bragðskynið. Freistingin er of mikil til að prófa ekki. Heiðurinn af þessum unaðslegu grilluðum súrdeigssamlokum á Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, sem heldur úti uppskriftasíðunni Valla Gröndal.

Smá lúxus en samt svo einfaldar og fljótlegar. Á milli tveggja glænýrra sneiða af súrdeigsbrauði koma vænar sneiðar af brie osti, stökkt beikon, rifinn ostur, klettasalat og punkturinn yfir i-ið er sultaður balsamik laukur sem fullkomnar bragðið. Grillaðar í blússheitu samlokugrilli og bornar fram með fersku salati. Þær passa ótrúlega vel sem hádegisverður, léttur kvöldverður eða jafnvel á bröns bakka og þá jafnvel skornar í fleiri bita. Fullkomnar til að mynda sunnudagsbrönsinn.

Ómótstæðilega girnilega samlokur og sjáið ostinn flæða þarna niður.
Ómótstæðilega girnilega samlokur og sjáið ostinn flæða þarna niður. Ljósmynd/Valla Gröndal

Grillaðar súrdeigssamlokur með beikoni, brie og sultuðum balsamik lauk

  • 4 þykkar súrdeigsbrauðsneiðar
  • ¾ brie eða annar hvítmygluostur
  • 6 þykkar beikonsneiðar, eldaðar þar til þær eru stökkar
  • Klettasalat eftir smekk
  • Rifinn ostur eftir smekk
  • ½ krukka sultaður balsamik laukur frá Ora eða ykkar eigin sultaði laukur
  • Smjör til þess að smyrja samlokurnar að utan
  • Flögusalt eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið beikonið á pönnu eða bakið í ofni þar til það er orðið stökkt. Þerrið fituna á eldhúsbréfi og setjið til hliðar.
  2. Skerið fjórar sneiðar af góðu súrdeigsbrauði. Mér finnst best að kaupa brauð skorið þar sem mér þykja fyrirframskornu sneiðarnar of þunnar.
  3. Skerið brie- ostinn í sneiðar og raðið á tvær brauðsneiðar.
  4. Raðið beikoninu á ostinn og dreifið lauknum jafnt yfir beikonið.
  5. Setjið það magn af klettasalati sem ykkur hugnast yfir laukinn og toppið með rifnum osti eftir smekk.
  6. Lokið samlokunum og hitið mínútugrill með riffluðum plötum eða þykkbotna pönnu.
  7. Smyrjið efra brauðið með smjöri og færið samlokuna að grillinu og leggið þær með smjör hliðina niður á plötuna. Smyrjið efra brauðið með smjöri og grillið (eða hitið) þar til þær eru vel gylltar og osturinn bráðinn.
  8. Setjið þá á disk með blönduðu salati og stráið flögusalti yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert