Guðdómleg smjördeigshjörtu fyllt með súkkulaði

Þessi smjördeigshjörtu með súkkulaði geta brætt hjörtu.
Þessi smjördeigshjörtu með súkkulaði geta brætt hjörtu. Ljósmynd/Guðrún Ýr

Konudagurinn er handan við hornið, hann er fram undan sunnudaginn 25. febrúar næstkomandi og þá er lag að gleðja sína konu gegnum matarhjartað. Hér er einföld uppskrift að smjördeigshjörtum sem geta svo sannarlega brædd konuhjartað og kemur úr smiðju Guðrúnar Ýrar Eðvaldsdóttur sem heldur úti uppskriftavefnum Döðlur og smjör. Þetta er ofureinföld uppskrift þar sem það er minnsta mál að kaupa tilbúið smjördeig og púsla svo hráefnunum saman. Það má prófa sig áfram og æfa sig fram á sunnudag ef vill, eins og máltækið segir: „Æfingin skapar meistarann“. Hjörtun eru fullkomin á morgunverðarbakkann í rúmið, eða í brönsinn eða sem eftirréttur, eftir hvað hentar hverjum og einum sem best.

Smjördeigshjörtu fyrir ástina

  • Smjördeig (hver plata gerir tvö hjörtu)
  • Súkkulaðismjör, Nusica
  • Flórsykur
  • Jarðarber

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stilla ofn á 200°C hita.
  2. Skerið út hjörtu með piparkökuformi eða með hníf, þá er gott að teikna hjarta á bökunarpappír, klippa það út og leggja á smjördeigið og skera meðfram pappírnum.
  3. Skerið svo grunnt með hníf u.þ.b. 1 cm inn í hjartað annað hjarta, ekki fara í gegnum deigið heldur aðeins hálfa leið. Setjið hjörtun á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í 10-12 mínútur.
  4. Þegar hjörtun eru orðin ljósbrún takið þá plötuna út og ýtið miðjunni varlega niður, en þannig gerið þið pláss fyrir súkkulaðismjörið.
  5. Setjið eina teskeið af súkkulaðismjöri í hvert hjarta, gott er að setja smá í skál og hita örlítið í örbylgjuofni og hella ofan í hjörtun, leyfið svo hjörtunum að kólna.
  6. Sáldrið flórsykri yfir hjörtun með sigti og skerið jarðarberin. Skerið litlar rákir í átt að toppinum án þess að fara alla leið í gegn, dragið berið í sundur og leggið á hjartað. Skreytið með súkkulaðismjöri yfir.
  7. Gott er að bera hjörtun fram með ís eða jafnvel rjóma, eða bara borða þau ein og sér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert