Dásamlega góð steikt risahörpuskel með sprettum

Dásamlega góð risahörpuskel steikt á pönnu, borin fram með radísum …
Dásamlega góð risahörpuskel steikt á pönnu, borin fram með radísum og sprettum að eigin vali. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Risahörpuskel er dásamlega góð pönnusteikt upp úr smjöri og sómir sér vel sem forréttur þegar veislu skal halda. Nanna Rögnvaldar matreiðslubókarhöfundur sem heldur úti uppskriftasíðunni Konan sem kyndir ofninn sinn útbjó eins manns veislu fyrir sjálfan sig þar sem risahörpuskelin var í aðalhlutverki. Sem má líka. Engu að síður má vel mæla með þessum rétti sem forrétti í næsta matarboði. Það tekur ekki langan tíma að framreiða þennan góða sjávarrétt og það er að koma helgi og konudagurinn er skammt undan. Þá er dekur í mat og drykk málið. Hér er hörpuskelin borin fram með radísum og sprettum þar sem ferskleikinn er í fyrirrúmi.

Hörpuskeilin er frábær sem forréttur í næsta matarboði.
Hörpuskeilin er frábær sem forréttur í næsta matarboði. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Steikt hörpuskel með radísum og sprettum

Fyrir 1

  • 3-4 risahörpuskelfiskar
  • 1 msk. hveiti
  • Pipar
  • Salt
  • 1 msk. ólífuolía og ögn meira
  • 1 tsk. smjör
  • 1-2 radísur, skornar í þunnar sneiðar
  • Lófafylli af sprettum
  • Ætisblóm að eigin vali ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því láta hörpuskelina þiðna ef hún er frosin, þerrið síðan skelfiskinn mjög vel með eldhúspappír fyrir steikingu.
  2. Blandið saman 1 msk. af hveiti, pipar og salti og dýfið endunum á hörpuskelinni í blönduna. Þið eigið ekki að velta henni upp úr hveitinu, það á ekkert að blöndunni að fara á hliðarnar, þrýstið henni ekki niður svo að of mikið hveiti fari á hörpuskelina.
  3. Hitið pönnu vel (helst úr steypujárni en ekki skylda).
  4. Setjið 1 msk. af ólífuolíu á pönnuna og setjið svo hörpuskelina á hana og steikið við háan hita í 1 ½ -2 mínútur, ekki lengur.
  5. Bætið þá 1 tsk. af smjöri á pönnuna rétt áður en þið snúið við hörpuskelinni og steikið jafnlengi á hinni hliðinni.
  6. Takið hana síðan strax af pönnunni.
  7. Raðið hörpuskelinni á disk.
  8. Dreifði radísusneiðunum í hring, ásamt sprettum. Klettasprettur og radísusprettur passa vel með, en það mætti líka nota t.d. kryddjurtir eða klettasalat eða eitthvað ámóta ef vill. 
  9. Dreypið góðri ólífuolíu yfir á fallegan hátt og skreytið að lokum með ætisblómum ef þið eigið þau til eða fáið í verslunum.
  10. Berið fram og njótið með drykk í fallegu glasi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka