Eins og fram hefur kom á matarvef mbl.is á dögunum er loksins komið að því að fyrsta mathöllin á Akureyri verði að veruleika. Kristján Ólafur Sigríðarson er einn af stofnendum nýju mathallarinnar á Akureyri en hjónin hjá HAF studio, Hafsteinn Júlíusson og Karítas Sveinsdóttir eru hönnuðirnir bak við mathöllina. Kristján hefur haft brennandi áhuga á veitingageiranum frá því að hann man eftir sér og hefur svo sannarlega látið að sér kveða í veitingageiranum síðastliðin ár.
„Ég hef haft áhuga á veitingageiranum frá því að ég man eftir mér og var fljótur að stökkva í djúpa endann þegar ég var kominn með aldur til. Ég kom til að mynda að stofnun og rekstri Borg22 Mathöll í Borgartúni og Wok On á sínum tíma en í dag rek ég veitingastaðinn Brand Vín&Grill ásamt miklu fagfólki. Það mætti því segja að ég brenni fyrir veitingahúsarekstri,“ segir Kristján.
Segðu okkur aðeins frá aðdraganda þess að þið ákváðu að fara út í það að opna mathöll á Akureyri?
„Hugmyndin um að opna mathöll á Akureyri hefur lengi blundað í kollinum á okkur. Við höfum verið með augun opin í nokkur ár fyrir viðeigandi húsnæði og svo framvegis. Þegar möguleikinn á því að vera á Glerártorgi stóð okkur til boða vissum við strax að það væri hinn fullkomni staður. Verkefnið er búið að vera í bígerð síðan árið 2020 en staðsetning var svo endanlega ákveðin fyrir um það bil átján mánuðum síðan og framkvæmdir hófust núna í janúar.“
Hefur þetta verið ástríðan ykkar fyrir því sem þið elskið að gera sem hefur drifið ykkur áfram að láta drauminn um mathöll á Akureyri verða að veruleika?
„Já, má vel segja það. Það hefur kostað blóð, svita og tár, að hljóta þann heiður að opna fyrstu mathöllina opnar á Akureyri. Við höfum lagt mikla vinnu í að finna rétta staðinn, teikna upp rétta rýmið og svo framvegis, til þess að tryggja að framtíðar-gestum okkar líði vel.“
Ber mathöllin nafn?
„Það er komið nafn á mathöllina en það tengist svæðinu og heimamenn eiga eftir að kveikja um leið hvaðan það kemur. Við komum til með að kynna það um leið og við erum búin að ganga frá nokkrum lausum endum,“ segir Kristján leyndardómsfullur á svipinn.
Þegar staðsetning var valin hvað réð för?
„Við horfðum til nokkra hluta þegar við völdum staðinn. Glerártorg er miðsvæðis og á sama tíma fer mikill fjöldi fólks á Glerártorg á hverjum degi. Þetta er tilvalinn staður til þess að bæta úrval veitingastaða, ekki bara á Glerártorgi heldur í bænum öllum. Að sama skapi hentar húsnæðið vel fyrir rekstur mathallar, loftræsting er góð og næg bílastæði svo að fá dæmi séu tekin.“
Þegar kom að því að hanna höllina, útlit, og velja efni og áferð innanhúss hvað réð för?
„Uppleggið var að skapa rými sem væri hlýlegt og sígilt, við vildum skapa umhverfi sem væri afslappað en um leið fágað. Hafsteinn og Karítas hjá HAF Studio sjá um hönnunina. Allar innréttingar og húsgögn eru að lang mestu leyti hönnuð og sérsmíðuð af HAF Studio.“
Aðspurður segir Kristján sérstöðu mathallarinnar liggja í því að hún verður eina mathöllin á Norðurlandi ef ekki sú nyrsta í heiminum. „Þó ég vilji nú ekki fullyrða það.“ Í mathöllin verða sex veitingastaðir ásamt því að afþreyingarstaður kemur og verður í nánu samstarfi við veitingastaðina. Mathöllin verður því tilvalin staður fyrir einstaklinga og hópa og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Er búið að ákveða hvaða veitingastaðir verða í höllinni?
„Það er mikill áhugi fyrir mathöllinni og er nú þegar búið að negla niður nokkra veitingastaði og fyrirspurnir berast nánast daglega. Ég get ekki gefið það upp eins og er hvaða staðir þetta eru en ég get fullyrt það að allir finna eitthvað við sitt hæfi. Ég líka hvet alla sem hafa áhuga á vera með okkur að senda mér línu á kristjan@darko.is
Þegar kom að því að velja veitingastaðina hvað réð för?
„Ég vil passa upp á fjölbreytni, það sé eitthvað fyrir alla, hvort sem það er að leita eftir heilsusamlegu, skyndibita eða setjast niður í fínan hádegis- og/eða kvöldmat með drykk.“
Það styttist óðum í opnun mathallarinnar og mikill stemning er í loftinu, ekki síst hvaða nafn mathöllin mun bera. „Stefnan er að opna snemma í sumar með pompi og prakt. Það er alltaf gaman að vinna með nýju fólki og þá sérstaklega á nýjum og skemmtilegum stöðum. Það er gaman að finna fyrir hvað Akureyringar og nærsveitungar eru spennt fyrir mathöllinni og ég hlakka til að opna dyrnar,“ segir Kristján að lokum.