Sjáðu Gabríel landsliðskokk töfra fram desert fyrir konuna

Gabrí­el Krist­inn Bjarna­son landsliðskokk­ur er þekkt­ur fyr­ir að gera syndsamlega góða eftirrétti og hann ætlar að gleðja sína konu á konudaginn á sunnudaginn með einum slíkum. Hann er nýkominn heim frá Stuttgart þar sem hann var með íslenska kokkalandsliðinu að keppa á Ólympíuleikunum í matreiðslu og eins og frægt er orðið kom liðið hlaðið verðlaunum heim.

Hvernig var upplifunin að ná þessum glæsta árangri með íslenska kokkalandsliðinu á Ólympíuleikunum í matreiðslu í Stuttgart í febrúar?

„Það var ótrúlega góð tilfinning að ná markmiðunum sem voru sett fyrr á þessu ári, og það að koma úr þessu móti sem þriðja sterkasta kokkalandslið heims. Það fyllir mann að stolti að koma heim með tvær gull medalíur,“ segir Gabríel og brosir breitt.

Hver verða næstu skref í keppnismatreiðslunni hjá þér?

„Ég ætla að taka mér smá frí frá keppni í bili en ég er þessa dagana að þjálfa nema ársins sem stefna á að keppa um að vera keppninni um að vera bestu nemar Norðurlandanna sem haldin verður í apríl næstkomandi í Helsinki.“

Ætlar að bjóða konunni upp á rósavínsdesert

Nú er konudagurinn fram undan um helgina, ætlar þú að dekra við þína konu í tilefni hans á sunnudaginn?

„Já, klárlega, ég ætla að henda í skemmtilegan rósavínsdesert, opna eina góða flösku og kannski fær hún blómvönd, hver veit,“ segir Gabríel.

Ertu til í að svipta hulunni af uppskriftinni að desertinum sem þú ætlar að töfra fram?

„Já, ég er til í það og get lofað að þessi hittir í mark. Þetta er desert sem ég bjó til fyrir nokkrum árum síðan sem sló í gegn á veitingastaðnum Héðni Restaurant sem er staðsettur við Seljaveg í gamla Vesturbænum og hef ég haldið áfram að gera þennan síðan,“ segir Gabríel og bætir við að þessi réttur slái ávallt í gegn þegar hann býður upp á hann í matarboði.

Rósavínsdesert að hætti Gabríels

Fyrir 2-4

Skyr mús

  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 200 g skyr
  • 250 g rjómi
  • 1 stk. matarlím

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða rjóma þar til suðan kemur upp, bætið síðan við matarlíminu.
  2. Setjið súkkulaðið í skál.
  3. Hellið síðan rjómanum yfir súkkulaðið og blandið vel saman.
  4. Blandið síðan skyrinu saman við og setjið músina í sprautupoka og geymið í kæli.

Lakkrís krem

  • 1 msk. lakkrís duft
  • 235 g mjólk
  • 4 eggjarauður
  • 30 g sykur
  • 1 tsk. salt
  • 40 g maízenamjöl

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja lakkrísduft og mjólk saman í pott og leyfið því að malla.
  2. Blandið síðan saman sykri og eggjum með písk í skál.
  3. Pískið síðan maízenamjölinu saman við eggin.
  4. Setjið smá af mjólkinni út í eggin til að blanda saman við svo þið setjið ekki köld egg í pottinn.
  5. Bætið loks öllu út í pottinn og pískið saman á miðlungs hita þangað til blandan verður þykk og silkimjúk.
  6. Setjið í kæli og kælið niður.
  7. Setjið síðan blönduna í sprautupoka.

Rósavín krap

  • 255 g rósavín
  • 50 g sítrónusafi
  • 300 g vatn
  • 120 g sykur
  • 1 stk. matarlím.

Aðferð:

  1. Byrjið því á að setja vatn og sykur saman í pott og látið suðuna koma upp.
  2. Bætið síðan matarlíminu, rósavíninu og sítrónusafanum saman við.
  3. Setjið síðan blönduna í ílát með loki og frystið þangað til að blandan er alveg frosin.

Samsetning:

  1. Sprautið lakkrískremi í botn skálarinnar.
  2. Sprautið síðan skyrmúsinni ofan á.
  3. Takið rósavínið úr frystinum og rífið með gaffli eða matskeið þangað til það myndar krap og bætið ofan á toppinn.
  4. Berið fram með glasi að rósavíni með eða öðru sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert