Öðruvísi vínarbrauð að hætti Húsó

Svona lítur Húsó-vínarbrauðið út og er einstaklega gott með ískaldri …
Svona lítur Húsó-vínarbrauðið út og er einstaklega gott með ískaldri mjólk eða kaffi. mbl.is/Árni Sæberg

Fast­ur liður á laug­ar­dags­morgn­um á mat­ar­vefn­um eru upp­skrift­irn­ar úr Húsó-eld­hús­inu sem njóta mik­ill vin­sælda hjá les­end­um. Að þessu sinni er það öðruvísi vínarbrauð að hætti Húsó með rabarbarasultu. Þetta vínarbrauð er aðeins öðruvísi en hefðbundið vínarbrauð hvað varðar útlit og bragð og ótrúlega gaman að baka það með þessari útfærslu. Einfalt og þægilegt og hráefniskostnaðurinn í lágmarki. Nostalgía fyrir marga að njóta einfaldleikans sem þekktur var hér áður fyrr og er alls ekki síðri.

Aldrei með tímasetningar í uppskriftum okkar

Vert er að geta þess að Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans minntist á það við undirritaða að ekki væri alltaf miðað við ákveðin baksturstíma þegar verið er að kenna bakstur. „Við erum aldrei með tímasetningu í uppskriftum okkar, hve lengi allt á að vera í ofninum því það er partur af kennslunni hjá okkur,“ segir Marta María og segir það gefa góð raun og nemendur læri að fara líka eftir tilfinningunni. 

Vínarbrauð með rabarbarasultu að hætti Húsó

  • 1 ½ bolli hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ bolli sykur
  • ½ tsk. vanillusykur
  • ¼ tsk. kardimommur, má sleppa
  • 75-100 g smjörlíki
  • 1 egg

Til að setja inn í:

  • Rabarbarasulta eftir smekk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnum í skál eða í hrúgu á borð.
  2. Myljið kalt smjörlíkið saman við.
  3. Hellið síðan vökvanum út í skálina (eggjum og dropum) og hrærið deigið saman með sleif.
  4. Hnoðið það svo á borði þar til það er samfellt.
  5. Hægt er að nota mjólk til að hnoða upp í hæfilega mjúkt deig eða þá bæta við örlitlu hveiti ef deigið er of blautt.
  6. Fletjið deigið út með kökukefli og skerið í tvær lengjur.
  7. Setjið síðan rabarbarasulta sett inn í, smyrjið lengjurnar.
  8. Rúllið lengjunum upp og setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír
  9. Setjið inn í ofn og bakið við 180°C hita, þangað til að lengjurnar eru orðnar gullinbrúnar og fallegar.
  10. Berið fram og njótið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert