Guðdómlegt hvítlauks- og pestó-pasta

Guðdómlegt hvítlauks- og pestó-pasta sem gleður bragðlaukana.
Guðdómlegt hvítlauks- og pestó-pasta sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Þessi pastaréttur er einstaklega ljúffengur og auðvelt að framreiða. Heiðurinn af uppskriftinni á Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör. Guðrún segir að uppskriftin sé innblásin af kjúklingaréttinum hennar Berglindar GRGS sem margir kannast eflaust við.

Hvítlauks- og pestó-pasta

Fyrir 3-4

  • 2-3 kjúklingabringur
  • 1 msk. olía
  • 3 hvítlauksgeirar
  • ½ hvítlauksostur
  • 200 ml rjómi
  • 100 ml vatn
  • ½ krukka rautt pestó - Filippo Berio
  • ½ tsk. salt
  • Pipar eftir smekk
  • Pasta, De Cecco Tagliatelline n° 204 eða pasta að eigin vali
  • Furuhnetur eftir smekk
  • Ostur eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið kjúklinginn í litla bita og setjið til hliðar.
  2. Setjið pönnu á helluna og stillið á miðlungshita, mælið eina matskeið af olíu og setjið á pönnuna, takið utan af hvítlauknum og skerið smátt niður eða kreistið með hvítlaukspressu.
  3. Bætið saman við olíuna og leyfið að steikjast í u.þ.b. 1 mínútu.
  4. Bætið þá kjúklingnum saman við og steikið í nokkrar mínútur.
  5. Rífið niður ostinn með rifjárni og blandið saman við kjúklinginn ásamt rjóma, vatni, pestó og salti og pipar.
  6. Eldið þangað til að osturinn er allur bráðnaður eða í u.þ.b. 5–10 mínútur.
  7. Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp.
  8. Setjið þá tagliatelline út í vatnið (gott að áætla um 4–5 einingar á mann).
  9. Sjóðið í 6–10 mínútur eða þangað til að það er orðið „al dente“.
  10. Sigtið vatnið af pastanu og blandið því saman við kjúklinginn og sósuna og hrærið vel saman.
  11. Gott er að sáldra nokkrum furuhnetum yfir og toppa með rifnum osti yfir.
  12. Eins og með alla pastarétti er gott að bera þá fram með góðu hvítlauksbrauði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert