Þessi pastaréttur er einstaklega ljúffengur og auðvelt að framreiða. Heiðurinn af uppskriftinni á Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör. Guðrún segir að uppskriftin sé innblásin af kjúklingaréttinum hennar Berglindar GRGS sem margir kannast eflaust við.
Hvítlauks- og pestó-pasta
Fyrir 3-4
- 2-3 kjúklingabringur
- 1 msk. olía
- 3 hvítlauksgeirar
- ½ hvítlauksostur
- 200 ml rjómi
- 100 ml vatn
- ½ krukka rautt pestó - Filippo Berio
- ½ tsk. salt
- Pipar eftir smekk
- Pasta, De Cecco Tagliatelline n° 204 eða pasta að eigin vali
- Furuhnetur eftir smekk
- Ostur eftir smekk
Aðferð:
- Skerið kjúklinginn í litla bita og setjið til hliðar.
- Setjið pönnu á helluna og stillið á miðlungshita, mælið eina matskeið af olíu og setjið á pönnuna, takið utan af hvítlauknum og skerið smátt niður eða kreistið með hvítlaukspressu.
- Bætið saman við olíuna og leyfið að steikjast í u.þ.b. 1 mínútu.
- Bætið þá kjúklingnum saman við og steikið í nokkrar mínútur.
- Rífið niður ostinn með rifjárni og blandið saman við kjúklinginn ásamt rjóma, vatni, pestó og salti og pipar.
- Eldið þangað til að osturinn er allur bráðnaður eða í u.þ.b. 5–10 mínútur.
- Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp.
- Setjið þá tagliatelline út í vatnið (gott að áætla um 4–5 einingar á mann).
- Sjóðið í 6–10 mínútur eða þangað til að það er orðið „al dente“.
- Sigtið vatnið af pastanu og blandið því saman við kjúklinginn og sósuna og hrærið vel saman.
- Gott er að sáldra nokkrum furuhnetum yfir og toppa með rifnum osti yfir.
- Eins og með alla pastarétti er gott að bera þá fram með góðu hvítlauksbrauði.