Smjörsteiktur aspas – frábær sem meðlæti eða forréttur

Girnilegur smjörsteiktur aspas sem bráðnar í munni.
Girnilegur smjörsteiktur aspas sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Nýr aspas eða spergill er merki um vorboðann í mörgum löndum. Á grænmetismörkuðum í mörgum löndum eins og í Frakklandi, á Ítalíu og Spáni er boðið upp á fjölda tegunda af aspas. Hann er þá ýmist hvítur eða grænn. Þessir hvítu vaxa í moldinni en þeir grænu fá sólarljós, en þeir verða grænir vegna þessa og geta jafnvel orðið fjólubláir.

Grænn aspas er einstaklega góður á marga vegu, það er hægt að borða hann hráan, steiktan, bakaðan eða soðinn. Hann er hægt að bera fram sem forrétt, sem meðlæti eða nýta í ljúffenga aspasrétti. Hanna Thordarson keramiker deildi með fylgjendum sínum á bloggsíðu sinni hér þessari einföldu uppskrift að smjörsteiktum aspas þar sem aspasinn fær að njóta sín til fulls. Þennan smjörsteikta aspas má borða einan og sér eða bera hann fram sem meðlæti með steik eða góðum fiskrétti. Sérstaklega fiskrétti sem borinn er fram með hollenskri sósu sem bráðnar í munni.

Smjörsteiktur aspas

  • 1 búnt aspas – ágætt að skera aðeins neðan af honum
  • Smjör
  • Saltflögur
  • Pipar

Aðferð:

  1. Setjið vatn í víðan pott, nægilega mikið til þess að það fljóti yfir aspasinn. Hitið að suðu.
  2. Setjið aspasinn ofan í og lækkið hitann aðeins, látið sjóða en alls ekki bullsjóða í 3–4 mínútur (fer eftir sverleika) og takið síðan aspasinn upp úr. 
  3. Ef aspasinn er soðinn of lengi missir hann fallega græna litinn. 
  4. Ágætt er að geyma suðuvatnið (aspassoðið), en hægt er að nota það í súpu. Þá er gott að láta soðið sjóða aðeins niður þ.e. láta vatnið sjóða í nokkrar mínútur í viðbót.
  5. Bræðið smjör á pönnu, en gætið þess að það brenni ekki.
  6. Leggið aspasinn á pönnuna og hækkið hitann.
  7. Látið brúnast aðeins á háum hita.
  8. Takið aspasinn af pönnunni og leggið á fat, piprið með nýmöluðum pipar og dreifið saltflögum yfir.
  9. Berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert