Gómsætt enskt-asískt lambasalat Nigellu

Eldhúsgyðjan Nigella Lawson kann svo sannarlega að leika við bragðlaukana …
Eldhúsgyðjan Nigella Lawson kann svo sannarlega að leika við bragðlaukana og þetta ensk-asíska lambasalat hennar er himneskt að njóta. Samsett mynd

Þetta gómsæta ensk-asíska lambasalat sem kemur úr smiðju eldhúsgyðjunnar Nigellu Lawson er algjört hnossgæti. Það sem gerir þetta salat svo gott er samblandið af dressingunni, lambakjötinu og myntunni. Þeir sem smakka þetta salat munu vilja fá það aftur og aftur. Reynslan hefur sýnt það. Lambalundir passa einstaklega vel í þetta salat en það má nota hvaða lambakjöt sem er í salatið, til að mynda eins og afgang af lambalæri eða lambahrygg en það þarf ekki að steikja í salatið. Uppskriftin passar vel fyrir tvo í aðalrétt en má vera forréttur líka og þá fyrir fjóra.

Enskt-asískt lambasalat

Fyrir 2

  • 2 tsk. ólífuolía
  • 1 lambalund eða annað lambakjöt, um 250 g
  • 1 haus salatblöð
  • ½ búnt fersk mynta eða eftir smekk

Salatsósan

  • 2 msk. fiskisósa
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 2 msk. hrísgrjónaedik
  • 1 tsk. sojasósa
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og fínsaxaður
  • 1 vorlaukur, saxaður 

Aðferð:

  1. Hitið olíu á góðri pönnu og steikið kjötið í 5 mínútur öðrum megin, snúið því svo við og steikið í 2 ½ mínútu hinum megin.
  2. Vefjið kjötinu inn í álpappír í bústna en þétta pakka og látið standa í 5 mínútur.
  3. Blandið saman salatsósunni í meðalstóra skál.
  4. Opnið álpappírspakkann og hellið safanum af kjötinu út í salatsósuna.
  5. Skerið lambalundina/lambakjötið í mjög þunnar sneiðar og bætið þeim líka út í.
  6. Sýran í sósunni mun elda lambið aðeins meira. Ef kjötið er hrátt látið það þá bara standa stutt í sósunni en lengur ef það virðist þurfa á því að halda.
  7. Kjötið á að vera fallega bleikt á litinn og prýða salatið.
  8. Skiptið salatblöðunum á tvo diska og leggið síðan kjötið með salatsósunni ofan á salatbeðin.
  9. Skreytið með myntu að lokum. Má líka skreyta með granateplafræjum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka