Valur leikari verður að fá kaffi sitt hárrétt

Valur Freyr Einarsson leikari og höfundur í Borgarleikhúsinu ljóstrar upp …
Valur Freyr Einarsson leikari og höfundur í Borgarleikhúsinu ljóstrar upp sínum matarvenjum að þessu sinni. Ljósmynd/Saga Sig

Valur Freyr Einarsson leikari og höfundur í Borgarleikhúsinu ljóstrar upp leynd­ardómnum bak við um sín­ar mat­ar­venj­ur og fleiri skemmti­leg­heit­um. Til að mynda segist hann ekki vera matsár en aftur á móti kaffisár svo fátt sé nefnt.

Þegar Valur er spurður út í skemmtilegar matarvenjur sínar segir hann að matur sé ekki það sem tengi hann við skemmtilegt. „Skemmtilegt er kannski ekki það fyrsta sem mér dettur í hug varðandi mat. Ég er frekar praktískur í matarmálum, borða til að nærast en ég er ekki mjög mikill smjattpatti. Besti matur sem ég fæ er hjá Ilmi konunni minni, hún er frábær kokkur,“ segir Valur.

Unglingarnir eru að dýrka þetta

Miklar annir eru þessa dagana hjá Val og hann er iðulega með marga bolta á lofti í einu. „Það eru ýmis verkefni í gangi, í vor munum við í CommonNonsense frumsýna gjörningaverk á listahátíð eftir Ilmi Stefánsdóttur sem heitir Las Vegan. Ég er að leika í Delerium Búbonis og  við vorum að frumsýna glænýjan söngleik Eitruð lítil pilla með tónlist sem mín kynslóð þekkir vel eftir Alanis Morrisett. Handritið er skrifað af Diablo Cody sem fékk Óskarinn fyrir handritið af Juno á sínum tíma. Þetta er sýning fyrir alla fjölskylduna en ekki síst unglinginn á heimilinu. Unglingarnir eru alveg að dýrka þetta. Ég skora á foreldra að drífa sig með unga fólkið það getur skapað gott tækifæri til að ræða hluti og upplifa saman mjög skemmtilega kvöldstund,“ segir Valur með bros á vör.

Leikarinn knái þarf góða orku fyrir sýningar og er með ágætis matarvenjur sem hann heldur í.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég elda graut alla morgna og set út í hann bláber, hindber, jarðarber eða það sem er til og kanil og stundum möndlusmjör.“ 

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

Ég borða ekki mikið milli mála en mér finnst mjög gott að grípa í ávexti , popp eða  góðan expresso.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, ég verð að fá orku í hádeginu annars pompa ég niður í orku í seinnipartinn. Bjössi kokkur í Borgarleikhúsinu er frábær og eldar alltaf góðan mat í hádeginu.“ 

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ávexti, smjör og ost og mjólk í kaffið.“

Fer á Austurindíafélagið þegar á að gera vel við sig

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Austurindíafélagið! Það er alltaf frábær matur, frábær þjónusta og kósí stemning.  Við förum ekki mjög oft en það klikkar aldrei þegar við leyfum okkur að borða þar.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Stutta svarið er nei. Mér finnst mjög gaman þegar ég kem á nýja staði að reyna að þefa uppi original veitingahús sem eru rekin af fjölskyldum og láta lítið yfir sér en alúðin í eldamennskunni leynir sér ekki.“

Jólasteikin hennar Ilmar minnar uppáhaldsrétturinn

Uppáhaldsrétturinn þinn?

„Ætli það sé ekki jólasteikin hennar Ilmar minnar. Það er yfirleitt dádýrasteik sem hún eldar að hætti hússins á aðfangadag. Það er matarupplifun. Þess utan er fiskur í miklu uppáhaldi. Grillaður fiskur er mikið uppáhald.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Kartöflur meira en salatið sækir á.“

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Matreiða. Ég nýt mín best á grillinu. Ég baka aldrei.“

Ertu matsár?

„Ég er ekki mjög matsár en ég er kaffisár. Kaffið mitt þarf að vera hárrétt. Tvöfaldur „cortado”, mjúkur, bragðmikill og má rífa svolítið í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert