Hlynur gefur uppskriftina að sínu uppáhalds lasanja

Hlynur Freyr Ómarsson er mikill matgæðingur og nýtur sín vel …
Hlynur Freyr Ómarsson er mikill matgæðingur og nýtur sín vel í eldhúsinu að matreiða fyrir sitt uppáhaldsfólk. Einn af hans uppáhaldsréttum er heimalagaða lasanja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlynur Freyr Ómarsson er mikill matmaður og veit fátt skemmtilegra en að elda heima fyrir fjölskylduna sína. Hann ólst upp við að borða fjölbreyttan mat og að njóta hans í faðmi fjölskyldunnar. Þeim sið hefur hann haldið við eftir að hann fór að búa með kærustu sinni. Hann sviptir hér hulunni af einum að sínum uppáhaldsrétti, heimalöguðu lasanja, sem er hinn fullkomni helgarréttur til að njóta með sínum bestu.

Hlynur mælir með fersku salati og hvítlauksbrauðið með lasanja-réttinum.
Hlynur mælir með fersku salati og hvítlauksbrauðið með lasanja-réttinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átti spænska ömmu sem eldaði suðrænan mat

Hlynur er 27 ára gamall rafvirkjanemi og er búinn að stofna fjölskyldu. „Ég er alinn upp í Mosfellsbæ en er að flytja til Vestmannaeyja með kærustunni minni Örnu Þyrí og dóttur okkar, Merkel Marey. Ég hef ávallt verið mikill matmaður frá unga aldri. Þegar ég var að alast upp borðaði ég mjög fjölbreyttan mat. Ég átti spænska ömmu sem eldaði suðrænan mat ásamt klassískum íslenskum réttum og voru pönnukökurnar hennar vinsælar hjá okkur í fjölskyldunni,“ segir Hlynur dreyminn á svip enda á hann góðar minningar um mat hjá ömmu sinni.

Innblásturinn kemur frá fjölskyldunni

Gæðastundirnar hans Hlyns eru gjarnan í eldhúsinu en hann nýtur þess að elda fyrir sig og sína og gerir mikið af því. „Skemmtilegast finnst mér að elda eitthvað sem tekur nánast allan daginn. Þar sem ég stend og nostra vel við matinn og með rauðvínsglas við hönd. Innblástur minn í matargerðina kemur að miklu leyti frá fjölskyldunni minni. Á mínu bernskuheimili var sá siður að við borðuðum alltaf kvöldmat saman á hverju kvöldi þar sem góður matur og samverustund var í forgangi, sama hversu mikið var að gera hjá okkur yfir daginn.“

Þegar kemur að tækjum og tólum í eldhúsinu finnst Hlyn skipta máli að vera með vel búið eldhús. „Ég get verið smá dellukall þegar kemur að tækjum og tólum í eldhúsinu en finnst nauðsynlegast að eiga góða potta, pönnur og hnífa,“ segir Hlynur með bros á vör.

Girnilegt lasanja-ið hans Hlyns og sjáið ostaveisluna.
Girnilegt lasanja-ið hans Hlyns og sjáið ostaveisluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lasanja uppskriftin frá pabba

Hann sviptir hér hulunni af einum að hans uppáhaldsrétti sem er lasanja. „Uppskriftin er frá pabba og hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og fjölskyldunni minni,“ segir Hlynur og bætir við að hann nostri gjarnan við lasanjað og sérstaklega Béchamel sósuna. „Hún er eiginlega aldrei eins hjá mér því ég nota svolítið það sem er til í ísskápnum að hverju sinni en uppskriftin að henni er í grunni eins og ég deili með ykkur.“

Hlynur skorar síðan á góða vin sinn og kokk, Joost Van Bemmel að taka við keflinu af sér og deila með lesendum matarvefsins uppskrift að sínum uppáhaldsrétt.

Heiðurinn af uppskriftinni á pabbi Hlyns. Lasanja a la Hlynur.
Heiðurinn af uppskriftinni á pabbi Hlyns. Lasanja a la Hlynur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lasanja að hætti pabba

Fyrir 4

Kjötsósan

  • 500 g hakk, blandar 50/50 nauta- og svínahakk eða folaldahakk
  • 1 stk. laukur, fínt skorinn
  • 2 stk. hvítlauksgeirar, fínt skornir
  • 1 stk. gulrót rifin
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 1 tsk. óreganó, krydd
  • 1 tsk. basilíka, krydd
  • 1 tsk. timian, krydd
  • 1 tsk. kjötkraftur
  • Hálf dós vatn (nota tómu tómatdósina)
  • Fersk lasanja blöð eða þurrkuð í pakka.

Aðferð:

  1. Byrja á því að steikja allt grænmetið á pönnu þar til það er mjúkt ásamt hakkinu.
  2. Steiki hakkið þar til það hefur náð að létt brúnast.
  3. Bætið síðan við hökkuðu tómötunum og tómatpúrrunni ásamt kryddunum.
  4. Fyllið síðan tómu tómatdósina til hálfs af vatni og setjið út á pönnuna og látið malla í um það bil 20-30 mínútur eða þangað til að sósan hefur þykknað.
  5. Leyfið að malla meðan Béchamel sósan er gerð.

Béchamel sósan

  • 1-2 msk. smjör
  • 1-2 msk, hveiti
  • Nýmjólk eftir þörfum og smekk
  • Rjómaostur eða rifinn ostur eftir smekk, má líka nota gráðost
  • Múskat, salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða 1-2 matskeiðar af smjöri í potti.
  2. Bætið síðan við 1-2 matskeiðum af hveiti og hrærið þangað til að blandan mótar ljóst deig eða deigkúlu.
  3. Bætið síðan saman við nýmjólk hægt og rólega, þangað til að þið eruð sátt við þykktina á blöndunni.
  4. Bætið við rjómaosti eða rifnum osti eða gráðaosti eða hvaða osti sem þið eigið til í ísskápnum til þess að fá meira ostabragð af sósunni.
  5. Kryddið síðan með múskati, salti og pipar og smakkið til.

Samsetning:

  1. Hitið ofninn í 200°C hita.
  2. Veljið eldfast mót fyrir lasanja-ið.
  3. Byrjið á því að setja smá Béchamel sósu í botninn og setjið svo lasanja plötur ofan á það, næst hakksósuna og svo aftur Béchamel sósu.
  4.  Endurtakið þetta þar til að þið eruð komin með helst 4-5 lög af lasanja plötum og endið síðan á því að setja Béchamel sósu yfir síðustu plöturnar og rifinn ost.
  5. Setjið síðan eldfastamótið inn í ofn á 200°C hita með undir og yfir hita og bakið réttinn í um það bil 30-40 mínútur eða þangað til að osturinn er orðinn gullin brúnn.
  6. Berið fram með því sem hugurinn girnist, til dæmis með fersku salati, hvítlauksbrauði eða bara sem matarhjartað kallar á.
Mikilvægt er að leyfa ostinum aðeins að brúnast í ofninum.
Mikilvægt er að leyfa ostinum aðeins að brúnast í ofninum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka