Keppnisskapið mun fleyta mér langt

Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari keppir fyrir Íslands hönd í undankeppni …
Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari keppir fyrir Íslands hönd í undankeppni Bocuse d'Or sem fer fram í Þrándheimi í Noregi um miðjan mánuðinn og ætlar sér að ná langt. mbl.is/Árni Sæberg

Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari keppir fyrir Íslands hönd í undankeppni Bocuse d'Or sem fer fram í Þrándheimi í Noregi um miðjan mánuðinn. Alls 20 þjóðir taka þátt í undankeppninni og 10 efstu keppendur komast í úrslitakeppnina.

Bocuse d'Or er það stærsta í keppnismatreiðslu sem er í gangi í heiminum í dag. Það er búinn að vera draumur minn lengi að fara í þessa keppni. Það má segja að ég hafi stefnt að þessu markmiði síðan ég byrjaði að læra kokkinn árið 2012,“  segir Sindri.

Hann byrjaði að læra kokkinn í Perlunni og lærði þar í fjögur ár. „Eftir útskrift fékk ég að vera með Viktori Erni Andréssyni matreiðslumeistara og aðstoða hann fyrir Bocuse d'Or. Hann lenti einmitt í þriðja sæti í Bocuse d'Or sem er besti árangur sem Íslendingur hefur náð. Það má segja að hann hafi smitað mig af löngun að keppa í Bocuse d'Or. Ég fékk að vera mikið með honum í undirbúningnum og þarna byrjaði boltinn að rúlla má segja,“ segir Sindri. Hann starfaði síðan á Ion hótelinu á Nesjavöllum í sex ár sem var mjög skemmtilegur tími að hans sögn. Í dag er Sindri einn af eigendum veisluþjónustunnar Flóran.

Frábær árangur að ná einu af fimm efstu sætunum

Sindri er búinn að leggja gríðarlega mikla vinnu í undirbúninginn fyrir Bocuse d'Or. Hann segir ljóst að um hörkukeppni sé að ræða. „Það væri frábær árangur að ná að vera í einu af fimm efstu sætunum. Ég er búinn að æfa undanfarna 4-5 mánuði á hverjum degi. Ég er með stórt teymi í kringum mig. Það eru aðstoðarmenn og fleiri sem koma að þessu og styðja mig af fullum krafti. Þetta er frábært teymi og ég er heppinn að vera með svona gott fólk fólk í kringum mig. Ég hef æft að undanförnu í glænýrri aðstöðu hjá Expert á Höfðabakka 7. Þetta er mjög flott eldhús, eiginlega rými sem er með gleri þannig að fólk getur fylgst með hvað ég er að gera í eldhúsinu. Þetta er geggjuð aðstaða og ég er þakklátur Expert hvað fyrirtækið hefur gert mikið fyrir okkur og stutt mig fyrir Bocuse d'Or,“ segir Sindri.

Sindri er með stórt teymi í kringum sig og það …
Sindri er með stórt teymi í kringum sig og það eru aðstoðarmenn og fleiri sem koma að þessu og styðja Sindra af fullum krafti. Hinrik Örn Halldórsson verður aðstoðarmaður Sindra í keppnisbúrinu. mbl.is/Árni Sæberg

Mun gera mitt allra besta

Hann segist vera orðinn mjög spenntur fyrir keppninni. „Ég mun gera mitt allra besta og ef maður veit að maður hefur gert sitt besta þá verður maður að vera sáttur. En ég stefni eins hátt og ég get. Ég er með mikið keppnisskap og það mun fleyta mér langt í Bocuse d'Or, ég er alveg sannfærður um það. Þetta verður hörkukeppni. Þeir sem keppa þarna eru allir mjög færir í sínu starfi, matreiðslunni. Norðurlöndin hafa ávallt verið með mjög sterka keppendur og það verður án svo einnig nú í ár. Flestallir keppendur ætla sér án efa langt þannig að það verður hart barist,“ segir Sindri.

Freyr frændi minn smitaði mig af fótboltanum

Aðspurður hvar áhuginn á matreiðslu hafi kviknað segir Sindri að fótboltinn hafi í raun kveikt þennan áhuga. „Ég held að þetta sé að mestu leyti tengt fótboltanum. Ég var í fótbolta þegar ég var yngri og lék með Víking í Ólafsvík. Frændi minn Freyr Bjarnason, sem lék með FH um árabil, smitaði mig af fótboltanum. Ég leit mjög mikið upp til hans þegar ég var strákur í Ólafsvík. Freyr varð Íslandsmeistari með FH í mörg ár. Ég lít á matreiðsluna eins og fótboltann og þaðan kemur keppnisskapið. Ég er tapsár að eðlisfari og þoli hreinlega ekki að tapa,“ segir hann brosandi. „Matreiðslan heldur mér gangandi eins og fótboltinn forðum.“

Sindri segist líta á matreiðsluna eins og fótboltann og þaðan …
Sindri segist líta á matreiðsluna eins og fótboltann og þaðan komi keppnisskapið. Hann er tapsár að eðlisfari og þoli hreinlega ekki að tapa. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert