Svona gerir Berglind sína kjötsúpu

Kjtösúpan hennar Berglindar lítur vel út.
Kjtösúpan hennar Berglindar lítur vel út. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Á þessum árstíma finnst mörgum gott að gera matarmiklar súpur eins og kjötsúpur. Hér er á ferðinni uppskrift að kjötsúpu frá Berglindi Hreiðars hjá Gotterí og gersemar en hún var að laga kjötsúpu í fyrsta skiptið aftur eftir langan tíma og segist í raun gera allt of lítið af því að laga súpur.

„Ég rúllaði yfir nokkrar kjötsúpuuppskriftir á netinu og hringdi síðan í mömmu til að fá hennar útfærslu staðfesta og þar með var þetta komið. Það er svo sem ekki mikið hægt að breyta út af vananum ef maður vill gera ekta íslenska kjötsúpu en í stað þess að nota aðeins súpujurtir notaði ég TORO kjötsúpu og virkar hún sem dúndurgóður kraftur með kryddjurtum,“ segir Berglind.

Matarmikil og bragðgóð súpa.
Matarmikil og bragðgóð súpa. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Kjötsúpan hennar Berglindar

Fyrir 8

  • 2-2,5 kg súpukjöt
  • 3 l vatn
  • 700 g rófur (ein frekar stór)
  • 500 g gulrætur
  • 500 g kartöflur (8-10 stk.)
  • ¼ hvítkálshaus
  • 1 laukur
  • 1 pk. TORO kjötsúpa
  • 50 g hrísgrjón
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skolið kjötbitana og setjið í pott með vatninu.
  2. Setjið 2 teskeiðar af salti saman við og náið upp suðunni.
  3. Lækkið síðan niður í meðalhita, setjið lokið á og leyfið að sjóða í 40 mínútur á meðan þið undirbúið grænmetið.
  4. Fjarlægið froðuna sem kemur af kjötinu í upphafi suðu, yfirleitt hættir hún að koma eftir um 10 mínútur.
  5. Flysjið grænmetið og skerið í munnstóra bita.
  6. Takið kjötið upp úr pottinum að 40 mínútum liðnum og setjið grænmetið í pottinn, náið aftur upp suðunni og lækkið hitann síðan aftur niður í meðalhita.
  7. Bætið TORO kjötsúpunni og hrísgrjónunum einnig saman við og hrærið vel saman.
  8. Skerið kjötið af beinunum og fjarlægið mestu fituna. Skerið kjötið í munnbitastærð og setjið aftur í pottinn.
  9. Leyfið öllu að malla saman í um 30 mínútur og smakkið síðan til með salti og pipar.
  10. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert