Hef brennandi áhuga á keppnismatreiðslu

Kristín Birta Ólafsdóttir, landsliðskokkur og matreiðslumaður, mun keppa fyr­ir Íslands …
Kristín Birta Ólafsdóttir, landsliðskokkur og matreiðslumaður, mun keppa fyr­ir Íslands hönd um titil­inn Nordic green chef ásamt Söru Káradóttur. Ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir

Norður­landa­mótið í mat­reiðslu verður haldið í Herrning í Dan­mörku 18. og 19. mars næst­kom­andi og þar munu frá­bær­ir full­trú­ar ís­lenskr­ar mat­ar­gerðar keppa um nokkr­ar verðuga titla. Íslend­ing­ar hafa náð framúrsk­ar­andi ár­angri á Norður­landa­mót­inu og ætla sér stóra hluti í ár.

Kristín Birta Ólafsdóttir, landsliðskokkur og matreiðslumaður, er ein þeirra sem mun keppa fyr­ir Íslands hönd en hún kepp­ir um titil­inn Nordic Green Chef eða Grænn mat­reiðslumaður Norður­land­anna. Kristín er 26 ára gömul og starfar á Hótel Reykjavík Grand auk þess sem hún er líka í meistaranámi í matreiðslu. Hún var valin í Íslenska kokkalandsliðið í maí á síðastliðnu ári og var á Ólympíuleikunum í febrúar þar sem kokkalandsliðið náði besta árangri í sögunni.

Matreiðsla það eina sem ég get hugsað mér að starfa við

Hún elskar starf sitt og getur ekki hugsað sér að gera annað en að matreiða og gleðja fólk. „Ég veit ekki um neitt sem mér finnst skemmtilegra heldur en að elda mat fyrir fólk sem elskar að borða mat. Matreiðsla er það eina sem ég get hugsað mér að starfa við og það sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt er að maður hættir aldrei að læra. Hvert sem maður fer þá mun maður kynnast fólki sem hefur eitthvað nýtt að kenna manni,“ segir Kristín með bros á vör.

Hefur þú ávallt vitað hvað þú vildir verða þegar þú væri orðin stór?

„Ekki alltaf, en þegar ég var að vinna í eldhúsi á dvalarheimili 15-16 ára gömul þá byrjaði áhuginn á matreiðslu að vaxa og ég vissi að ég vildi verða kokkur í framtíðinni. Ég fékk vinnu á Grand, og var samhliða því í fjölbrautaskóla, og tók þá ákvörðun að ljúka stúdentsprófi fyrst og byrja svo á samningi á Grand.“ 

Veitti mér drifkraft til að halda áfram

Nú er þú nýkomin heim af Ólympíuleikunum í matreiðslu þar sem þið kokkalandsliðið náðuð framúrskarandi árangri og lönduðu tveimur gullverðlaunum og bronsi. Hvernig tilfinning er að hafa náð þessum árangri og hvað gerir það fyrir þig?

„Þetta var æðisleg tilfinning, og ferðalagið upp að þessu augnabliki þar sem við stóðum á pallinum var langt og krefjandi en ótrúlega skemmtilegt. Ég er svo stolt af liðinu og öllum sem hafa stutt við bakið á því allan þennan tíma. Þetta hefur bara veitt mér drifkraft til að halda áfram að gera góða hluti og ná lengra í keppnismatreiðslu. Það er eitthvað sem ég hef brennandi áhuga á.“

Hefur þú tekið þátt í mörgum matreiðslukeppnum?

„Ég hef tekið þátt í nokkrum, þ.e. í keppninni Matreiðslunemi ársins, Eftirréttur ársins tvisvar, á Íslandsmóti iðngreina, og svo núna síðast á Ólympíuleikunum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu.“

Segðu okkur aðeins frá keppninni sem þú ert að fara taka þátt í næstu viku?

„Þetta er sem sagt Norðurlandamót, Nordic chef, og þar keppast við allar Norðurlandaþjóðirnar í fjórum greinum. Það eru Nordic chef, Nordic chef junior, Nordic green chef og Nordic waiter. Við Sara erum að keppa saman í Nordic green chef og þar erum við að fara að framreiða þriggja rétta máltíð þar sem grænmeti er í aðalhlutverki. Við megum nota dýraafurðir en ekkert kjöt og fisk. Við fáum ákveðin skylduhráefni sem þurfa að vera í réttunum. Í forréttinum er skylda að nota rauðrófu og hvítan lauk, í aðalréttinum kirsuberjatómata, gúrku og Jerúsalem-ætiþistla, og í eftirréttinum Jivara-mjólkursúkkulaði, bláber og epli. Þar að auki fengum við hráefnislista sem við máttum velja af,“ segir Kristín og bætir við að þetta verði afar spennandi keppni og áskorun að takast á við.

Hefur þú sett þér markmið fyrir þá keppni?

„Já, markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman – því til hvers er maður annars að þessu, og að labba út úr þessari keppni stolt af því sem ég gerði. Æfingarnar eru búnar að vera stífar og krefjast mikillar vinnu. Þær eru nánast alla daga sem við erum ekki að vinna. Hvort sem það eru tímaæfingar eða æfingar á einhverjum atriðum.“

Mikilvægt að hafa góðan stuðning

Hvað er það sem skiptir máli að hafa á hreinu til að ná árangri í keppni sem þessari?

„Það eru mjög mörg atriði sem skipta máli í keppniseldhúsinu sjálfu, til dæmis hreinlæti, skipulag, að skila matnum af sér á réttum tíma, að sýna fagleg vinnubrögð og svo framvegis. Síðan vegur bragð matarins helming stiganna. En til þess að ná árangri í svona keppni er líka gríðarlega mikilvægt að hafa góðan stuðning og fólk sem hvetur mann áfram.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér í matreiðslunni?

„Framtíðardraumar mínir breytast dag frá degi! Stundum hugsa ég að ég væri til í að stofna mitt eigið fyrirtæki og taka þátt í öllum keppnum sem í boði eru, eða flytja eitthvert út og vinna, jafnvel ferðast um heiminn og vinna hér og þar, en í raun er ég bara svolítið þannig að ég tek einn dag í einu og sé hvert það leiðir mig,“ segir Kristín og heldur áfram við verkin sín í eldhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert