Eins og fram hefur komið verður Norðurlandamótið í matreiðslu haldið í Herrning í Danmörku 18. og 19. mars næstkomandi og þar munu frábærir fulltrúar íslenskrar matargerðar keppa um nokkrar verðuga titla. Íslendingar hafa náð framúrskarandi árangri á Norðurlandamótinu og ætla sér stóra hluti í ár.
Sara Káradóttir matreiðslumaður er ein þeirra sem tekur þátt og mun hún keppa um titilinn Nordic Green Chef eða Grænn matreiðslumaður Norðurlandanna með Kristínu Birtu Ólafsdóttur landsliðskokki. Sara hefur dálæti að faginu og er orðin afar spennt fyrir því að fara út að keppa fyrir Íslands hönd. Áhugi hennar á matreiðslu kom þegar hún starfaði við uppvaskari og fékk aðeins prófa sig áfram í matargerðinni.
Sara er uppalin á Egilsstöðum en flutti til Reykjavíkur 18 ára til þess að læra matreiðslu. „Ég byrja að vinna á Fiskmarkaðinum á starfssamning og útskrifast sem matreiðslumaður vorið 2021. Núna er ég í meistaranáminu og stefni að því að klára í vor ásamt því að vinna samhliða á Hótel Reykjavík Grand,“ segir Sara og bætir við að þetta sé það sem hún hefur ástríðu fyrir.
„Matreiðsluástríðan mín byrjaði almennilega þegar ég vann sem uppvaskari sumarið sem ég varð 15 ára gömul og fékk þá að hjálpa aðeins til og gera aðeins meira en bara vaska upp. Það sem heldur matarástríðunni minni uppi er þegar gestirnir eru ánægðir og kunna að meta það sem ég bý til handa þeim. Sérstaklega ef ég hef lagt mikla ígrundun og tíma í að búa til eitthvað sérstakt og fá að deila þeirri sköpun og matarupplifun með öðrum.“
Hefur þú ávallt vita hvað þú vildir verða þegar þú væri orðin stór?
„Þegar ég var lítil þá var það ekki efst í huga mínum að verða kokkur. En ég var mjög snemma byrjuð að hafa áhuga á að baka pönnukökur og alls konar bakkelsi þegar ég kom heim úr grunnskólanum.“
Hefur þú tekið þátt í mörgum matreiðslukeppnum?
„Þetta er mín fyrsta matreiðslukeppni svo ég er svolítið að henda mér út í djúpu laugina með því að fara í þessa keppni. En heppin að fara að keppa með henni Kristínu Birtu sem er mjög reynd í matreiðslukeppnum.“
Segðu okkur aðeins frá keppninni sem þú ert að fara taka þátt í næstu viku?
„Þetta er matreiðslukeppni þar sem við erum að gera forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Aðalhráefnin eru einungis grænmeti. Við höfum tvo og hálfan tíma til að undirbúa allt þar til við þurfum að skila forréttinum. Í forréttinum þurfum við að gera „burger“ aðalhráefnin eru rauðrófur og hvítur laukur. Í aðalrétt eru aðalhráefni jarðskokkar, juanita tómatar og gúrka. Í eftirrétt eru aðalhráefnin græn epli, fersk bláber og Jivara mjólkursúkkulaði. Þessi keppni er með aðalhráefnin grænmeti en við megum nota allar dýraafurðir eins og mjólk, smjör og egg, líkt og Kristín Birta hefur upplýst lesendur matarvefsins um,“ segir Sara sem er orðin ofur spennt að afar út og klára verkið.
Ætlum gera okkar besta og betur en það
Hefur þú sett þér markmið fyrir keppnina?
„Markmiðið er sett hátt fyrir þessa keppni. Við ætlum að gera okkar besta og aðeins betur en það. Til þess að ná því markmiði þá erum búnar að vera á stífum æfingum. Fáum til okkar fagfólk til að koma og smakka, gagnrýna og veita okkur ráð um hvar við getum bætt okkur. En svo er það ánægjan og lærdómurinn sem fylgir þessari keppni sem skiptir miklu máli.“
Hvað er það sem skiptir máli að hafa á hreinu til að ná árangri í keppni sem þessari að þínu mati?
„Til þess að ná þeim árangri sem við ætlum okkur þá er skipulag númer eitt, tvö og þrjú. Síðan þar sem þessi keppni er tveggja kokka keppni, við Kristín Birta erum saman í liði þá skipta samskipti okkar og samvinna gríðarlega miklu máli. En auðvitað er það bragð og gera góðan mat sem mun koma okkur langt.“
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér í matreiðslunni?
„Framtíðin mín í matreiðslu er óráðin en þetta fag er svo skemmtilegt og fjölbreytt að ég get alltaf haldið áfram að læra eitthvað nýtt. Draumurinn hefur oft verið að fara út og læra meira en sjáum til hvað framtíðin hefur í för með sér,“ segir Sara með bros á vör.