Blikinn Höskuldur er líka góður í eldhúsinu

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks er mörgum hæfileikum gæddur og má …
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks er mörgum hæfileikum gæddur og má þar nefna hæfileika hans í eldhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu, er mörgum hæfileikum gæddur og það eru ekki allir sem vita að fótboltamaðurinn knái er mikill matgæðingur. Hann er eldklár í eldhúsinu og leggur sitt af mörkum í eldamennskunni á sínu heimili.

Höskuldur er Kópavogsbúi, fæddur þar og uppalinn og segist vera Bliki í húð og hár. „Ástríðan mín er bundin fótboltanum og hefur lengi verið það. Umfram hann þá stefni ég á að klára meistaranám mitt við Háskólann í Reykjavík þetta misserið, ásamt því að halda áfram að rækta fyrirtæki sem ég rek ásamt félögum mínum, Skjálausnir,“ segir Höskuldur og brosir.

Tengsl mín við matargerð sterkust við jólaborðhaldið

En ástríða hans liggur líka í matargerðinni. „Ég hef alltaf haft áhuga á að njóta góðs matar og nýlega, eða á seinni tíð, hef ég reynt að leggja mitt af mörkum í eldamennskunni. Foreldrar mínir höfðu þá siðvenju að búa til heimabakaða pítsu á hverjum föstudegi, sem varð hápunktur kvöldmatarins vikulega. Pabbi heldur þessari hefð enn á lofti og ég lít reglulega inn til þeirra „gömlu“ í pítsaboð. En ég hef líka sjálfur reynt að halda þessari hefð á lofti á mínu heimili og við kærastan reynum að hafa pítsakvöld alla föstudaga þegar færi gefst,“ segir Höskuldur og bætir við að hefðir í matargerð fái sinn sess á hans heimili.

Höskuldur er liðtækur í eldhúsinu og nýtur þess að elda …
Höskuldur er liðtækur í eldhúsinu og nýtur þess að elda fyrir sína nánustu. mbl.is/Árni Sæberg

„Tengsl mín við matargerð eru þó kannski sterkust við jólahaldið, þar sem samveran og matargerðin skapa ógleymanlega stemningu og huggulegheit. Ekki aðeins maturinn sjálfur, heldur allt umstangið og metnaðurinn í kringum jólaborðhaldið finnst mér vekja einstaklega hlýjar tilfinningar og kæta hugann. Foreldrar mínir eiga hrós skilið fyrir að hafa skapað ákveðna stemningu í kringum jólahaldið sem hafði mikið gildi og þýðingu fyrir mann sem barn, ekki síst þegar kom að matnum. Mig langar að leitast við að fanga svipaða stemningu heima hjá okkur kærustunni og deila henni með okkar nánustu,“ segir Höskuldur einlægur.

Sækir innblásturinn í gæðastundina

Innblásturinn fyrir matargerðina segist Höskuldur sækja í gæðastundina við eldamennskuna. „Það getur verið mikil yndisstund að hella sér í hálft rauðvínsglas, hlusta á hlaðvarp og almennt nota þessa stund til þess að róa hugann, flýta sér ekki og fá jafnvel smá útrás fyrir sköpun í eldamennskunni. Ég á mér því ekki beint fyrirmyndir í eldhúsinu sem ég sæki innblástur til, þó ég vissulega hafi horft á Nigellu Lawson mikið sem krakki, heldur sæki ég hann í gæðastundina sjálfa.“

Hvað tæki og tól finnst þér nauðsynlegt að eiga í eldhúsinu þegar kemur að því að matreiða?

„Ég ætla að nefna það tól sem mér finnst mikilvægast að hafa og það er góður hnífur.“ Þegar Höskuldur er spurður hvað honum þyki skemmtilegast að elda, segir hann svarið vera einfalt: „Heimagerða pítsu.“

Góður hnífur er það tól sem Höskuldi finnst mikilvægt að …
Góður hnífur er það tól sem Höskuldi finnst mikilvægt að eiga í eldhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Orkuskálin tekur á sig mismunandi form

Höskuldur er iðinn í eldhúsinu þessa dagana og elskar að gleðja sína með orkuskál. Söguna á bak við orkuskálina segir Höskuldur ekki vera neina nema að hann hafi alltaf fílað orkuskálar. Hann deilir hér með lesendum Morgunblaðsins galdrinum á bak við orkuskálina sína sem getur tekið á sig mismunandi form og kannski áferð líka. „Ég er mikið að elda „orkuskál“ þessa dagana en í grunninn er hún einhvern veginn svona eins og uppskriftin hér að neðan lýsir og magn fer eftir smekk hvers og eins og hversu margar skálar á að gera en hver og einn fær sína skál.“

Skorar á vin sinn að taka við keflinu

Að lokum vill Höskuldur skora á vin sinn að taka við keflinu af sér og gefa lesendum Morgunblaðsins uppskrift að sínum uppáhaldsrétti þessa dagana. „Ég vil trúa því að góður vinur minn og samferðamaður í fótboltanum, Árni Vilhjálmsson, hljóti að hafa tileinkað sér færni í eldamennsku eftir dvöl sína á Ítalíu með konunni sinni, Söru Björk, og vilji deila henni með okkur.“

Orkuskálin hans Höskuldar er stútfull af góðum og næringarríkum hráefni. …
Orkuskálin hans Höskuldar er stútfull af góðum og næringarríkum hráefni. Hún lítur svo girnilega út. mbl.is/Árni Sæberg

Orkuskálin hans Höskuldar

Grunnur

  • Salat frá Vaxa
  • Bankabygg frá Móður jörð

Viðbót

  • Ýmiss konar grænmeti
  • Brokkólí
  • Harðsoðið egg
  • Sólblómafræ og graskersfræ
  • Furuhnetur
  • Pistasíuhnetur
  • Kjúklingabaunir
  • Svart doritos
  • Ólífuolía eftir smekk og þörfum
  • Sojasósa eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að rífa niður salat í stórar skálar.
  2. Sjóðið bankabyggið, með smá ólífuolíu, ef ég nenni steiki ég það aðeins á pönnu í lokin með smá dassi af sojasósu.
  3. Skerið niður fullt af grænmeti, til dæmis kirsuberjatómata, gúrku, rauða papriku og annað sem þið eigið til í ísskápnum.
  4. Léttsteikið kjúklingabaunir og kryddið þær eftir smekk, ég nota mismunandi krydd eftir dagsformi hverju sinni.
  5. Gufusjóðið brokkólí og steikið á pönnu í kjölfarið.
  6. Harðsjóðið egg og skerið niður.
  7. Blandið öllu saman í skál og brjótið í lokin niður smá svart doritos og stráið yfir, ásamt furuhnetum, graskersfræjum, sólblómafræjum og pistasíuhnetum eftir smekk.
  8. Berið fram og njótið.
Höskuldur er mjög hrifinn af Perlubygginu frá Móður Jörð.
Höskuldur er mjög hrifinn af Perlubygginu frá Móður Jörð. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert