Einn eftirsóttasti veislu- og viðburðarstaðurinn í Garðabæ, sjálft Sjálandið, hefur verið opnaður á ný en staðnum var lokað í október í fyrra eftir að rekstrarfélagið varð gjaldþrota. Fjölskyldan í Múlakaffi hefur tekið við rekstrinum.
„Við erum afar stolt af því að bæta Sjálandi við í framboð okkar á veislu- og veitingaþjónustu. Sjáland er einn glæsilegasti veislu- og viðburðastaður landsins á mögnuðum stað við sjávarsíðuna,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.
Sjáland hefur um margra ára skeið verið einn vinsælasti veislustaður landsins og hafa ófá brúðkaup, afmælisveislur og árshátíðir farið fram á staðnum. Þar eru tveir salir, annar sem hentar stærri viðburðum og svo minni salur sem passar fyrir minni boð. Yfirkokkur Múlakaffis, Eyþór Rúnarsson, hefur umsjón með matseðli og áherslum Sjálands í mat og drykk.
„Við erum nú þegar farin að taka við bókunum fyrir sumarið, síminn hefur varla stoppað síðan að það spurðist út að Sjáland yrði opnað aftur. Enda er húsnæðið sérhannað fyrir veislur og viðburði af öllum gerðum. Við ætlum að gera enn betur og bjóða upp á reglulega viðburði í Sjálandi, tónleika, Pub Quiz, bingó, og þess háttar viðburði sem eiga eftir að gleðja Garðbæinga og aðra höfuðborgarbúa,“ segir Guðríður.
Múlakaffi var stofnað árið 1962 og er rótgróið fjölskyldufyrirtæki. Í dag rekur Múlakaffi eina stærstu veisluþjónustu landsins. Jóhannes Stefánsson, Múlakóngurinn sjálfur eða Jói í Múlakaffi eins og hann er kallaður, er ekki sestur í helgan stein þótt dóttir hans, Guðríður, sé tekin við framkvæmdastjórninni.
„Við fjölskyldan erum saman í rekstrinum og elskum það sem við gerum, pabbi er ennþá á fleygiferð og ef hann er ekki uppi á jökli með veislu eða í öðrum verkefnum þá stendur hann vaktina í Hallarmúlanum. Veisluþjónustan er orðin kjarninn í starfseminni í dag og þess vegna er Sjáland frábær viðbót það sem við gerum best. Við ætlum að gera Sjáland að frábærum veislu- og viðburðastað þar sem fagleg þjónusta, bragðgóður matur og flott framsetning er í lykilhlutverki. Hver einasta veisla er sérstök fyrir hvern viðskiptavin og upplifunin afar mikilvæg,“ segir hún.
Eitt af því sem Múlakaffi mun bjóða upp á í Sjálandi er fundaaðstaða fyrir smærri hópa eins og til dæmis fyrirtæki sem vilja breyta um umhverfi. Fundarherbergið er með fallegu útsýni út á voginn og er fullkomið fyrir þá sem vilja næði og góðan mat að fundi loknum.
„Framtíðin er björt í Sjálandi og ég hvet fólk og fyrirtæki til að hafa hafa hraðar hendur að bóka sínar veislur, það er nú þegar farið að þéttast hjá okkur í sumar og langt fram á haust. Við höfum meira að segja bókað nokkur jólahlaðborð og árshátíðir nú þegar,“ segir hún.