„Að skreyta brauðterturnar er hvað skemmtilegast við þetta allt“

Sif Magnúsdóttir segir að brauðtertur slái alltaf í gegn.
Sif Magnúsdóttir segir að brauðtertur slái alltaf í gegn. Samsett mynd

Sif Magnúsdóttir segir brauðtertur alltaf slá í gegn í fermingarveislum en hringlaga brauðterturnar hennar gleðja augað. Sif segist fyrst og fremst vera venjuleg húsmóðir í Hafnarfirði sem finnst gaman að taka þátt í veislugerð með þeim sem henni þykir vænt um.

„Mér finnst öll matargerð skemmtileg. Ég hef verið dugleg í að prufa mig áfram, sérstaklega í smáréttum. Mér finnst heillandi að fá sér nokkra mismunandi rétti á diskinn og upplifa fullt af allskonar brögðum. Stundum styðst ég við uppskriftir og hugmyndir frá öðrum og breyti þeim eftir mínu höfði. Stundum verður bara eitthvað nýtt til – með misjöfnum árangri.“

Sif hefur fengið góða hvatningu í eldhúsinu heima fyrir.

„Það er gaman að segja frá því að ég ætlaði aldrei að elda eftir að ég kynntist manninum mínum, Þórði Norðfjörð, fyrir 22 árum. Hann er matreiðslumeistari og ég var svo viss um að ég myndi klúðra öllu en fyrir hans tilsögn og hvatningu hefur mér tekist að komast nokkuð skammlaust frá verki,“ segir Sif.

Góð vegan brauðterta! „Ég var beðin um að aðstoða við …
Góð vegan brauðterta! „Ég var beðin um að aðstoða við veganbrauðtertu og renndi ég aðeins blint í sjóinn með það en það tókst virkilega vel. Ég smurði brauðið með góðum hummus. Útbjó Pico de gallo og passaði að hafa það ekki of blautt út af brauðinu. Ég bætti við smá basilpestó og lokaði henni með vegan chili majó. Ofan á blandaði ég brakandi fersku salati við hvítt misopaste og skreytti svo með spírum, radísum og paprikum.“

Fiskibollur í karrí í fermingarveislu

Hjónin eiga fjóra drengi og því öllu vön þegar kemur að fermingum.

„Ég hef aðstoðað við ótal fermingar, við hjónin eigum fjóra drengi og alltaf lagt upp með það að þetta sé þeirra dagur og hvað það sé sem að fermingarbarninu þykir gott. Það er mikilvægt að setjast niður með fermingarbarninu og fá hugmyndir, stundum fær maður ekki mikið til að vinna með. Til dæmis bara eina tegund en þá er um að gera að vera búin að sanka að sér myndum af mat og geta sýnt viðkomandi. Þá gerist ýmislegt skemmtilegt.

Ein ferming sem ég aðstoðaði með var mjög eftirminnileg og skemmtileg en uppáhaldsmatur fermingarbarnsins var fiskibollur í karrí. Við hjálpuðumst því að við að gera fullt af litlum fiskibollum, bara einn munnbiti í karrísósu og þetta vakti þvílíka lukku. Í bland við fiskibollurnar var svo kalt roast beef, meðlæti bæði heitt og kalt. Svo að fermingarveislan getur og má vera alls konar.“

Það er smá maus að gera hringlaga brauðtertur en það …
Það er smá maus að gera hringlaga brauðtertur en það er vel þessi virði.

Ferskt skraut sem passar við innihaldið

Í fyrra gerði Sif brauðtertur fyrir fermingarveislu hjá vinafólki. Hún segir alltaf tilefni til að bjóða upp á brauðtertur.

„Það er mjög gaman að sjá hversu margir sækja í þær og alveg frábært að það sé til Facebook-síða þar sem fólk deilir hugmyndum og uppskriftum að þeim. Ég hjálpaði til við nokkrar í fyrra og þær sem slógu hvað mest í gegn voru hringlaga, önnur tegundin var vegan og fannst fólki það frábær kostur og heppnuðust þær einstaklega vel fyrir fyrstu tilraun. Síðan er rækjubrauðtertan alltaf klassísk og ég legg mikið upp úr að hafa hana sem allra ferskasta, nota sítrónur og ferskar kryddjurtir.

Hringlaga brauðtertur eru einstaklega fallegar á borði, aðeins meiri handavinna í þeim þar sem það getur verið erfitt að fá brauðin tilbúin hringlaga. En ég hef keypt rúllutertubrauð frá Myllunni og skorið eftir hringlaga smellukökuformi. Það er algengara að þær séu ferkantaðar en hvort sem þær eru kringla eða ferkantaðar þá eru fallega skreyttar brauðtertur alltaf eitthvað sem grípur augað,“ segir Sif.

Fagurkerinn Sif nýtur þess einna mest að skreyta brauðterturnar

„Að skreyta brauðterturnar er hvað skemmtilegast við þetta allt. Hugmyndaflugið fer á fullt. Það þarf að sjálfsögðu að passa að það hráefni sem notað er í skreytingar passi við innihald tertunnar og huga þarf að því að yfirleitt standa þær í einhvern tíma við stofuhita og þá reyni ég að velja hráefni sem stendur vel. Ég er svo heppin að tengdamamma, Jóna Guðrún, sem er brauðtertumeistari fjölskyldunnar, hefur kennt mér fullt í gegnum tíðina en það sem okkur finnst hvað mikilvægast er að hafa hráefnið sem allra ferskast og ekki of stórt skorið.“

Sif hefur hjálpað til í ótal fermingarveislum. Einu sinni bjó …
Sif hefur hjálpað til í ótal fermingarveislum. Einu sinni bjó hún til fiskibollur í karrý fyrir fermingarbarnið.

Gott að fá aðstoð í veislunni

Ert þú dugleg að hjálpa vinum og vandamönnum í kringum fermingar?

„Mér finnst æðislega gaman að fá símtal þar sem ég er beðin um að hjálpa til við veislugerð, allt frá því að vera að elda fyrir saumaklúbb annarra upp í það að aðstoða við brúðkaup. Smáréttaveislur eru í uppáhaldi en þær geta verið tímafrekar. Þá er gott að eiga góða vini og fjölskyldu sem eru tilbúin að hjálpa og oftar en ekki myndast æðislega skemmtileg stemning við að vera að elda saman. Þetta er oftar en ekki ódýrari kostur heldur en að kaupa veitingarnar tilbúnar. Svo getur verið afgangur af hráefni sem ég nýti svo í að elda og bjóða hjálparhellunum í mat.“

Það stendur ekki á svörum þegar Sif er beðin um nokkur heilræði fyrir foreldra og forráðamenn sem eru að fara halda fermingarveislur.

„Það sem mér finnst mestu máli skipta er að vera búin að ná mér í það hráefni sem ég er að fara að nota með eins miklum fyrirvara og hægt er. Einnig ef það er verið að nýta sér að fá lánuð kaffistell og diska, sem yfirleitt liggur lítið notað inni í skáp hjá vinum, ná í þetta allt með góðum fyrirvara. Það fellur alltaf eitthvað til á síðustu stundu og þá er gott að vera búin að lágmarka hlaupin. Eftir að hafa haldið margar veislur sjálf í gegnum tíðina finnst mér eitt það allra mikilvægasta að fá aðstoð í veislunni sjálfri við að fylla á mat og drykki, taka óhrein glös og diska og almennan frágang. Maður hefur ætlað að vera rosa öflugur í þessu öllu sjálfur en þá lendir maður í því að hafa verið svo upptekinn við þetta allt að maður náði ekki að spjalla við alla gestina nema á hlaupum og þannig á veislan hjá manni sjálfum alls ekki að vera. Munum að njóta, þessi dagur kemur ekki aftur,“ segir Sif að lokum.

Ferkantaðar brauðtertur eru líka klassískar. Lykillinn er að skreyta þær …
Ferkantaðar brauðtertur eru líka klassískar. Lykillinn er að skreyta þær fallega með fersku hráefni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert