Veitingastaðurinn Spíran sem þekkt er fyrir heiðarlegan og góða mat flutti á dögunum í nýtt og glæsilegt húsnæði í Álfabakka 6 og er við hliðina á Garðheimum. Eins og margur veit var Spíran á annarri hæð Garðheima í Mjóddinni. Eigandi og rekstrarstjóri Spírunnar er Rúnar Gíslason en hann rekur einnig veisluþjónustuna Kokkarnir.
Fjölmenni mætti í opnunarpartíið
Í tilefni af því var haldið opnunarpartí þar sem vinum og velunnurum var boðið í mat og drykk. Boðið var upp á glæsilegan matseðil sem var blanda af kræsingum frá veisluþjónustunni Kokkunum og Spírunni. Fjölmenni mætti í opnunarpartíið og gleðin var við völd. Gestir gæddu sér á kræsingum og nutu góðs félagsskapar innan um matgæðinga og gleðigjafa.
Bröns og steikardagur
Spíran er fjölskylduvænn bistro-staður þar sem boðið er upp á heiðarlegan mat alla virka daga á frábæru verði. „Fastur liður er meðal annars steikardagurinn á föstudögum. Þá hefur nautasteik með bernaise heldur betur slegið í gegn og er alltaf röð út að dyrum. Síðan er það léttur og gómsætur bröns um helgar þar sem kapp er lagt á ferskleika og hollustu í bland við sæta bita sem hefur notið mikill vinsælda og er fastur liður hjá mörgum fjölskyldum,“ segir Rúnar með bros á vör.
Sumarið verður spennandi hjá Spírunni en þá mun bætast við útisvæði fyrir matargesti sem mun án vafa njóta mikilla vinsælda.