Gummi Jör býður upp á vikumatseðilinn

Guðmundur Jörundsson, alla jafna kallaður Gummi Jör, býður upp á …
Guðmundur Jörundsson, alla jafna kallaður Gummi Jör, býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Jörundsson, alla jafna kallaður Gummi Jör, býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni sem er ótrúlega freistandi fyrir alla sælkera. Gummi Jör er mikill matgæðingur og á og rekur meðal annars veitingastaðinn og fataverslunina Nebraska á Barónsstíg ásamt félögum sínum.

Samtvinna matarupplifanir og fataverslun

Hugmyndin hefur vakið verðskuldaða athygli, þar sem hægt er að njóta góðrar matarupplifunar á sama tíma og verið er að versla fatnað. Gummi Jör hefur verið áberandi í íslenskum verslunarrekstri og fatahönnun og fannst honum kærkomið að breyta til með félögum sínum og samtvinna veitingareksturinn með fataverslun.

Miklar annir hafa verið undanfarnar vikur á veitingastaðnum og á dögunum var gestakokkur á Nebraska sem lék listir sínar í eldhúsinu fyrir matargesti með einstakri matarupplifun. Það hefur því verið nóg að gera hjá Gumma Jör síðustu vikur en hann gaf sér tíma til að setja saman sannkallaðan sælkera vikumatseðil fyrir lesendur matarvefsins sem hér er kominn í loftið.

Mánudagur – Rauðspretta með smælki

„Líkt og allir vita sem alist hafa upp í þjáningunni sem það er að búa á Íslandi eru mánudagar fiskidagar. Eina leiðin til að sigrast á skammdeginu er að mæta því af fullum þunga. Grár mánudagur með enn meiri hversdagsleika, fiskur. Rauðspretta er einn af mínum uppáhalds matfiskum og við byrjum vikuna á einni pönnusteiktri.“

Steikt rauðspretta með smælki lítur vel út.
Steikt rauðspretta með smælki lítur vel út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðjudagur – Hægeldaður kjúklingur með hunangi, engifer og límónu

„Ég elska kjúkling, eða skíthoppara eins og Bjarni Snæðingur matreiðslumaður kallar hann. Þriðjudagar eru dagar þar sem ég þarf kjöt en ekki of þungt. Engifer og límóna gerir þetta léttleikandi og það styttist í helgina. Krakkarnir fyrirgefa mér fiskinn frá því í gær þegar þau fá hægeldaðan skíthoppara.“

Hægeldaður kjúklingur með hunangi, engifer og límónu.
Hægeldaður kjúklingur með hunangi, engifer og límónu.

Miðvikudagur – Snitzel með kartöflumús

„Frúin er hálfur Þjóðverji og verður hreinlega viðþolslaus ef hún fær ekki vikulega alvöru þýskt schnitzel. Þessa vikuna verður það grísa schnitzel eða „Schweineschnitzel“ eins og hún kallar það en þá næstu verður það kálfa schnitzel.“

Snitzel og kartöflumús passa vel saman.
Snitzel og kartöflumús passa vel saman. Ljósmynd/Ljúfmeti

Fimmtudagur – Lágkolvetna pítsa crossfit kroppsins

„Eins og margir vita þá er það þannig að ef ég er ekki í eldhúsinu að sýsla þá er ég á crossfit-æfingu. Ég ákveð því að henda í eina lágkolvetna pítsu crossfit-kroppsins þennan góða fimmtudag.“

Lágkolvetna pítsa er kærkomin til að njóta eftir góða æfingu.
Lágkolvetna pítsa er kærkomin til að njóta eftir góða æfingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Föstudagur – Smjörsteiktur aspas
„Það er kominn fössari og það er að vora. Það eru enn þá nokkrar vikur í „Spargelzeit“ eða aspas-tíð í Þýskalandi en ég bara verð að taka forskot á sæluna og hefja upphitun. Koma mér í gírinn fyrir „Spargelzeit“ á veitingastaðnum mínum Nebraska en við verðum í fyrsta skipti í ár með í aspas-stemmingunni. Krakkarnir taka illa í þetta aspas-rugl og fá sér grjónagraut til að fylla magann. Sú þýska fer hins vegar himinlifandi inn í helgina með tvöfalt þýskt þema þessa vikuna. Við smjörsteikjum þennan aspas og borðum hann sem aðalrétt.“

Smjörsteiktur aspas bráðnar í munni.
Smjörsteiktur aspas bráðnar í munni. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Laugardagur – Nautalund með villisveppasósu

„Ég er rosalega oft í stuði fyrir steik á laugardögum. Staðan verður nákvæmlega sú þennan laugardaginn og við skellum í rosalega trufflu nautasteik með villisveppasósu. Það skiptir reyndar engu máli hversu oft ég reyni að gera villisveppasósu, hún er aldrei jafn góð hjá mér og hjá mömmu.“ 

Hin fullkomna nautalund.
Hin fullkomna nautalund. mbl.is/Árni Sæberg

Sunnudagur - Grænmetislasanja

„Við tökum mjúka lendingu á sunnudaginn eftir þunga nautasteik og svitabaðið sem fylgdi alla nóttina. Ég lét kappið bera fegurðina ofurliði og borðaði um það bil 400 grömm of mikið af nautinu. Við fáum okkur grænmetislasanja og tökum spilakvöld. Ég er síðastliðin ár farinn að vera meira fyrir gott grænmetislasanja en hið klassíska.“ 

Syndsamlega girnilegt grænmetislasnja.
Syndsamlega girnilegt grænmetislasnja. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert