Eins og fram hefur komið matarvef mbl.is er Norðurlandamótið í matreiðslu komið á fullt og er haldið í Herrning í Danmörku þessa dagana. Mótið hófst í gær og mun halda áfram í dag, þriðjudag. Frábærir fulltrúar íslenskrar matargerðar eru að keppa um nokkrar verðuga titla en Íslendingar hafa náð framúrskarandi árangri á Norðurlandamótinu undanfarið og ætla sér stóra hluti í ár.
Meðal þeirra sem munu keppa í dag er Andrea Ylfa Guðrúnardóttir framreiðslumeistari og veitingastjóri á OTO. Hún keppir um titilinn Nordic Waiter eða framreiðslumeistari Norðurlandanna og byrjar keppni klukkan 8.00 á staðartíma í Herrning.
„Ég hef unnið á Michelin-stjörnu veitingastöðum bæði á Íslandi og í Noregi og hef mjög gaman af „Fine Dining“ þjónustu. Ég legg mikla áherslu á góða þjónustu og sérstaklega góða upplifun. Þjónninn er sá sem selur gestinum upplifunina og það er eitthvað sem gesturinn tekur með sér heim og man eftir,“ segir Andrea.
Segðu okkur aðeins frá ástríðu þinni fyrir faginu?
„Ég hef mikinn áhuga á að byggja upp keppni í framreiðslu á Íslandi og er með alls konar plön í farvatninu varðandi það. Til að mynda er ég með þrjá framreiðslunema hjá mér á OTO og vann einn þeirra titilinn Framreiðslunemi ársins 2023 og annar neminn okkar hafnaði í þriðja sæti. Við stefnum síðan að því að byggja upp undankeppni fyrir Evrópumót sem haldin eru í iðngreininni, eins og Euroskills. Undankeppnin verður haldin í haust á þessu ári og síðan stóra keppnin einmitt haldin í Herrning árið 2025.“
Hefur þú tekið þátt í mörgum framreiðslukeppnum?
„Í fyrra keppti ég í Framreiðslumaður ársins og þar hafnaði ég í fyrsta sæti og vann mér inn titilinn Framreiðslumaður ársins 2023 og fékk þar af leiðandi þátttökuréttindi til þess að keppa í Nordic Waiter,“ segir Andrea. „Ég hef einu sinni tekið þátt keppni áður, það var einmitt Nordic Waiter 2023 en sú keppni var haldin í Hell í Noregi. Ég hafnaði í fjórða sæti keppninni og vonandi kemst ég á pall í ár.“
Ertu reynslunni ríkari eftir þátttökuna í fyrra?
„Það er ótrúlega gaman að keppa í faginu. Ferðalagið í annað land er lærdómsríkt og í keppninni fær maður tækifæri til að búa til tengslanet út fyrir Ísland sem er kærkomið. Maður kynnist svo mikið af skemmtilegu fólki. Einnig er æfingaferlið svo skemmtilegt en á sama tíma mjög strembið. Þátttaka mín í síðustu keppni fór beint í reynslubankann og mun koma sér vel í framtíðinni.“
Hver er munur á þessari keppni og þeirri sem þú tókst þátt í á síðasta ári?
„Þessi keppni núna er haldin í Herrning í Danmörku á risa stóru „Food Expo,“ svo aðstaðan er miklu betri en í fyrra. Svæðið er miklu stærra og viðburðurinn umfangsmeiri. Hér er allt til taks og keppnissvæðið lítur út eins og veitingastaður, fólk getur labbað og skoðað sig um og fær upplifunina beint í æð.“
Hvaða hæfileika þarf besti framreiðslumeistarinn að hafa til brunns að bera?
„Hann þarf að vera opinn persónuleikinn og tilbúinn í að læra nýja hluti, það kemur honum strax mjög langt.“
Hvað er það sem skiptir máli að hafa á hreinu til að ná árangri í keppni sem þessari?
„Það sem skiptir máli er að vera vel skipulagður og vera með rétt hugarfar, ég trúi því þetta séu þau atriði sem koma manni langt,“ segir Andrea að lokum.