„Þetta þýtur bara hjá. Ég man ekkert eftir keppnisdeginum sjálfum, það er bara í þoku,“ segir Sindri Sigurðsson, spurður hvort eitthvað hafi staðið upp úr á keppnisdegi Evrópuforkeppni Bocuse d'Or í Þrándheimi.
Sindri keppti þar fyrir hönd Íslands í dag en í samtali við mbl.is kveðst Sindri hafa náð sínum markmiðum í keppninni þó svo að hann hefði auðvitað viljað enda í hærra sæti.
Sindri náði 8. sæti í keppninni en árangurinn gefur honum keppnisrétt í aðalkeppni Bocuse d'Or, sem haldin verður í Lyon í Frakklandi í lok janúar 2025. Hafði Sindri fimm og hálfa klukkustund til að matreiða kjötrétt og fiskrétt fyrir 20 dómara.
Aðspurður segir hann það mestu máli skipta að ná að komast í aðalkeppnina enda þurfi árangur í forkeppninni ekki að hafa merkingu fyrir árangur í aðalkeppninni.
Bocuse d'Or er ein af virtustu matreiðslukeppnum heims og hefur verið líkt við Ólympíuleika matreiðslumanna. Eru þátttakendur því meðal fremstu matreiðslumanna sinna landa og miklar kröfur gerðar til þeirra.
Þjálfari Sindra er Sigurjón Bragi, Bocuse d'Or-keppandi árin 2023 og 2013, og aðstoðarmaður er Hinrik Örn Halldórsson. Dómari Íslands var Þráinn Freyr Vigfússon.