Frabbó-ískaffi Hildar og eggjahræran hans Hreiðars í páskabrönsinn

Hildur Gunnlaugsdóttir er sniðugri en flestir og bauð upp á …
Hildur Gunnlaugsdóttir er sniðugri en flestir og bauð upp á vinkonu páskabröns þar sem var bæði föndur og hittingur. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og umhverfisfræðingur, meðeigandi arkitektastofunnar Stúdíó Jæja er mikill lífs­k­únstner og er sniðugri en flest­ir í öllu því sem hún tek­ur sér fyr­ir hend­ur.

Það á líka við þegar páskarnir ganga í garð. Hún heldur ekki í neinar hefðir í tengslum við páskana en veit fátt skemmtilegra en að finna tíma þegar frí er annars vegar til að fara í framkvæmdir eða stórtiltekt. Hún skreytir um páskana og nýtir tímann til að halda boð og bjóða upp á litríkar kræsingar með frumlegu sniði til að tryggja að hún finni ekki fyrir aðgerðaleysi. Hún deilir hér með lesendum nokkrum uppskriftum fyrir páskabrönsinn og fleira skemmtilegu.

Leiðist aðgerðarleysi

Þegar matarhefðir í tengslum við páskana eru annars vegar segist Hildur ekki halda í neinar. „Við erum ekki með neinar hefðir en ég er gjörn á að fara í einhverjar framkvæmdir eða stórtiltekt eða álíka því mér leiðist svo aðgerðarleysi en ég er að reyna að læra að njóta stundarinnar og slaka aðeins á, jafnvel liggja uppi í sófa og lesa ef börnin leyfa mér það. Núna mun ég örugglega finna mér eitthvað að gera, annað hvort framkvæmdir heima fyrir eða á litla hótelinu okkar,“ segir Hildur.

Þegar Hildur er innt eftir því hvort að hún gerir sitt eigið páskaskraut segir hún svo vera, á sinn hátt. „Ég er mikill skreytari en páskaskrautið er þó yfirleitt föndur sem safnast saman í aðdraganda páskana en á það til að týnast milli ára. Það er fátt skemmtilegra en að föndra með stelpunum mínum þremur og með vinkonum. Síðan hef ég einstaklega gaman að því að vera með falleg blóm um páskana og finnst þau gera mikið. Við stelpurnar höfum föndrað ýmislegt gegnum árin og við elsta stelpan mín gerðum blóm úr crep-pappír sem urðu misfalleg en það var svo gaman að gera þau,“ segir Hildur og bendir á pappablómin á eyjunni sem blasa við.

Borðstofuborðið hjá Hildi er litríkt og páskalegt og alls konar …
Borðstofuborðið hjá Hildi er litríkt og páskalegt og alls konar föndur fær að njóta sín. mbl.is/Árni Sæberg

Lakkríssúkkulaði kanínan frá Omnom uppáhalds

Fjölskyldan elskar páskana og leggur mikið upp úr páskaeggjaáti á góðan hátt. „Ég á uppáhaldspáskaegg en það er samt kanína en lakkríssúkkulaði kanínan frá Omnom er alltaf keypt löngu fyrir páska og vel falin. Ég keypti síðan sjávarsaltskaramellu kanínuna handa manninum mínum í ár. Litlurnar mínar fá ávallt allt of mörg páskaegg en ég hef mikla trú á því að það sé betra að borða minna en betra súkkulaði,“ segir Hildur og brosir.

Súkkulaðikanínurnar frá Omnom eru mjög vinsælar á heimili Hildar.
Súkkulaðikanínurnar frá Omnom eru mjög vinsælar á heimili Hildar. mbl.is/Árni Sæberg

Hver skyldi vera eftirminnilegasti málshátturinn þinn?

„Dramb er falli næst“, svolítið harkalegur málsháttur í súkkulaðieggi skreyttu gerviblómum og unga,“ segir Hildur og skellihlær.

Hildur segir að hún eigi margar bernskuminningar í tengslum við páskana en ein standa þó upp úr. „Þegar ég var í kringum 10 ára aldurinn í páskafríi og mamma í vinnunni þá fannst okkur vinkonunum góð hugmynd að fara í stuttbuxur og út að hjólaskauta, það var svo fallegt veður enda sól  og snjórinn næstum farinn en við komumst fljótt að því að það var hvorki stuttbuxna né hjólaskautaveður og þegar inn var komið hringdi síminn en mamma hafði frétt af þessu uppátæki frá nágrannakonu,“ segir Hildur og bætir við að á bernskuárunum hafi oft páskarnir verið sumarboðinn enda skrautið og blómin í anda sumarsins.

Páskabröns og páskaföndur fyrir vinkonurnar

Hildur er mikil stemningskona og elskar að finna tilefni til fyrir skemmtilega hittinga. „Ég ákvað að bjóða vinkonunum í einfaldan páskabröns og páskaföndur í tilefni þess að páskarnir eru í nánd. Mér finnst svo gaman að blanda saman einhvers konar föndri og vinahittingum. Það er enginn þrýstingur á að gera eitthvað fallegt heldur bara að prófa sig áfram. Við vinkonurnar fórum einu sinni til Lindu Ólafs í búbblur og blekmálunarnámskeið sem var ótrúlega skemmtilegt og svo er líka gaman að fara á Höfuðstöðina og Noztra í föndur en líka svo kósí að gera þetta heima. Ég bauð upp á „Páska“-Frappó-ískaffi í brönsinum sem ég er með algjört æði fyrir, uppáhaldseggjahræruna sem maðurinn minn gerir og pönnukökur. Síðan bauð ég líka upp á páskamímósu, hún er auðvitað ómissandi þegar páskabröns er í boðið. Þessi mímósa sem ég bauð upp á er reyndar bara ofur venjuleg mímósa en með smá páskaskrauti sem setur punktinn yfir -i-ið.“

Eggjahræran hans Hreiðars hefur slegið í gegn hjá matargestum Hildar.
Eggjahræran hans Hreiðars hefur slegið í gegn hjá matargestum Hildar. mbl.is/Árni Sæberg

Frabbó-ískaffi Hildar og eggjahræra Hreiðars

Hildur deilir hér með lesendum matarvefsins uppskriftunum af Frappó-ískaffinu ásamt eggjahrærunni sem hægt er að bjóða upp á um páskana og gleðja sitt fólk með. Ég geri sniðugar pönnukökur úr bókinni hennar Hrefnu Sætran sem eru bara úr höfrum, kotasælu og eggjum, kann ekki við að deila uppskriftinni en þið getið fundið uppskriftina í bókinni hennar og ég mæli eindregið með henni. Ég fékk algjört æði fyrir ískaffi í fyrra og er alltaf að leika mér að því að búa til nýjar og skemmtilegar kaffiuppskriftir. Þessi páskauppskrift hér sem ég deili með ykkur er algjört spari, enda mikil bomba,“ segir Hildur dreymin á svip. Að lokum langar Hildi til að hvetja alla til að sýna hlýju og vinsemd um páskana. „Ef við sýnum fólki í kringum okkur hlýju og vinsemd þá verðum við hamingjusamri í leiðinni, það er ótrúlega auðveld leið til þess að verða aðeins hamingjusamri.“

Frabbó-ískaffið hennar í Hildar komið í páskabúning.
Frabbó-ískaffið hennar í Hildar komið í páskabúning. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur heldur úti líflegri og skemmtilegri Instagramsíðu @hvasso_heima þar sem hún sýnir frá ýmsu varðandi hönnun, arkitektúr og matreiðslu sem vert er fyrir áhugasama að fylgjast með.

Frabbó-ískaffi

  • Kælt kaffi með karamellukeim
  • 50 ml mjólk að eigin vali
  • Klakar
  • Vanilluís
  • 3 tsk. súkkulaði síróp
  • Smá þeyttur rjómi
  • Lítil páskaegg og kökuskraut til skreytingar

Aðferð:

  1. Takið til stórt og veglegt glas að eigin vali.
  2. Hellið í það kælt kaffi með karamellukeim og mjólk.
  3. Setjið síðan klaka út eftir smekk.
  4. Bætið síðan vanilluís útí.
  5. Setjið síða súkkulaðisírópið út í.
  6. Setjið smá þeytta rjóma ofan á.
  7. Skreytið með litlum páskaeggjum og kökuskrauti eftir smekk.
  8. Líka hægt að frysta kaffið í klakaformum ef maður vill hafa það aðeins sterkara.
  9. Berið fram og njótið.

Eggjahræra Hreiðars

  • 6 egg
  • 100 g kotasæla
  • 1 mexíkóostur
  • Grænar ólífur eftir smekk, skornar í bita eða sneiðar
  • Kirsuberjatómatar eftir smekk, skornir í bita, eða litla báta

Aðferð:

  1. Hitið pönnu yfir meðalhita með smá ólífuolíu á.
  2. Pískið saman eggin.
  3. Bætið kotasælu út í.
  4. Skerið mexíkóostinn í litla bita og bætið út í blönduna.
  5. Setjið blönduna á heita pönnuna.
  6. Bætið síða ólífum og kirsuberjatómötum út í eggjahræruna þegar hún hefur aðeins tekið sig.
  7. Hrærið á pönnunni þar til eggin eru orðin vel steikt og falleg á pönnunni.
  8. Setjið á disk og berið fallega fram á páskalegt borð.
Hildur hefur gaman að því að skreyta með lifandi blómum.
Hildur hefur gaman að því að skreyta með lifandi blómum. mbl.is/Árni Sæberg
Glæslilegt eldhúseyjan hjá Hildi.
Glæslilegt eldhúseyjan hjá Hildi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert