Sælkerinn Linda Ben er vön því að töfra fram gómsætar dásemdir árið um kring og reglulega birtast á matarvefnum ómótstæðilegar uppskriftir frá henni. Þar sem sælkerahátíðin, páskarnir, eru á næstu grösum ákvað ég að heyra aðeins í henni hljóðið, kanna hvað einkennir hennar páskahátíð og fá kannski hjá henni eins og eina uppskrift að hinni fullkomnu páskamáltíð.
Páskarnir eru uppáhaldshátíð margra þar sem stressið og lætin sem oft einkenna jólahátíðina eru víðs fjarri og Linda tengir að einhverju leyti við það. „Páskarnir eru yndislegur tími. Það er líka farið að vera svo bjart úti og byrjað að færast líf í allt sem hefur legið í dvala yfir veturinn. Oftar en ekki nær maður mjög góðu fríi með fjölskyldunni sem er yndislegt. Ég get samt ómögulega gert upp á milli þessara hátíða því þær eru báðar frábærar á sinn hátt,” segir Linda og brosir.
„Þegar ég var yngri fórum við fjölskyldan oft í einhverjar framkvæmdir heima fyrir um páskana sem mér fannst mjög skemmtilegt. Foreldrar mínir eru virkilega duglegt fólk sem nýtir tímann ávallt vel. Við vorum því oft að vinna að einhverju heima eins og til dæmis mála heimilið eða eitthvað þannig,” segir Linda aðspurð um það hvernig páskarnir voru þegar hún var að alast upp. Nú orðið hefur fjölskyldan svo skapað sínar eigin hefðir: „Við byrjum páskadag alltaf á að leita af páskaeggjunum okkar sem við höfum falið hver fyrir öðru kvöldið áður. Það er virkilega skemmtileg hefð. Eftir að allir hafa fundið páskaeggin sín útbúum við okkur bröns sem við njótum saman og fáum okkur svo auðvitað páskaegg í desert.“
Aðspurð um hvað Lindu finnist helst einkenna íslenska páska svara Linda því til að það séu fyrst og fremst súkkulaði páskaeggin en hún fær sér alltaf eitt slíkt. Einnig nefnir hún íslenska lambakjötið og líka smá snjó en flest tengjum við líklega páskana við páskahretið víðfræga.
Þegar ég bað Lindu að deila með lesendum matarvefsins hvað fjölskyldan ætlar að gera um páskana er hún fljót til svars því fjölskyldan ætlar sér að búa til nýja minningar um þessa páska. „Við stefnum á að skapa mjög eftirminnilega páska þar sem við erum öll að fara í golfferð erlendis að kenna krökkunum að spila golf. Það er eitthvað sem við erum öll mjög spennt fyrir og verður ferðin vonandi ómetanleg minning þegar fram líða stundir.
En það sem er alveg heilagt á páskunum er páskalambið, en það er þó yfirleitt aldrei eins eldað þar sem ég elska að prófa að nýjar útfærslur í matargerðinni. Í desertunum er ég yfirleitt að vinna meira með sítrónur og ber sem koma með vorlegar yfirbragð,” segir Linda þegar páskamáltíðir ber á góma.
Að lokum spyr ég Lindu hvernig hún ætlar að matreiða lambalærið um páskana. „Ég elska appelsínumaríneringuna frá SS, hún gerir kjötið rosalega bragðmikið og gott. Ég er búin að prufukeyra það sem ég ætla að bjóða upp á og ég fór aðeins óhefðbundnari leiðir í meðlætinu að þessu sinni en ég bar lambabóginn fram með kryddjurtapestói og maísbaunasalati. Það kom alveg svakalega vel út og hlaut ég mikið lof fyrir þennan rétt frá fjölskyldunni. Litirnir sem einkenna þennan rétt eru líka páskalegir og mikill vorbragur yfir réttinum öllum,” segir Linda Ben að lokum og nú er ekkert annað að gera en að ná sér í hráefnin og prófa þessa girnilegu uppskrift að hinni fullkomnu páskamáltíð að hætti Lindu.
Appelsínukryddleginn lambabógur með grænu kryddjurtapestói
Aðferð:
Grænt kryddjurta pestó
Aðferð:
Maísbaunasalat
Sósa
½ dl kaldpressuð jómfrúar ólífu olía
3 msk. hvítvínsedik
2 msk. majónes
1 hvítlauksgeiri
1 tsk .paprikukrydd
½ tsk. salt
½ tsk. pipar
Salat
½ rauðlaukur
½ agúrka
½ – 1 ferskur jalapenó
1 gulrót (meðalstór eða 2 stk. litlar)
2 dósir maísbaunir
Aðferð:
Byrjið á því að útbúa sósuna með því að setja í stóra skál ólífuolíu, hvítvínsedik, majónes, rifinn hvítlauksgeira paprikukrydd, salt og pipar.
Hrærið vel saman.
Bætið ofan í sósuna smátt sneiddum rauðlauk, agúrkubitum, sneiddum jalapenó, rifinni gulrót og maísbaunum og hrærið saman.