Leyndardómsfulla uppskriftin að Primadonnum

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir er mikill aðdáandi páskanna og finnst þeir …
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir er mikill aðdáandi páskanna og finnst þeir gjarnan bjóða upp á besta fríið. Hún ætlar að matreiða lamb um páska með Prímadonnum og ekta páska-bernaise sósu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg er þingmaður Viðreisnar í Reykjarvíkurkjördæmi norður og er skemmti­legri en flest­ir og þekkt fyrir að vera hrók­ur alls fagnaðar.

Hún hefur mikla ánægju að matreiða góðan mat og njóta með fjölskyldu og vinum. Það ætlar hún að gera um páskana og gefur hér lesendum matarvefsins uppskriftina að páskamáltíðinni sinni, að páskalambinu, leyndardómsfullu uppskriftinni að Primadonnu smælkinu og páska-bernaise sósunni sem er gerð í samstarfi tveggja með ást og natni. Síðan er það salatið sem boðar vorið.

Mér finnst páskarnir algjörlega frábær tími. Gott frí og róleg hátíð sem einkennist auðvitað af súkkulaði en hjá okkur er minna um alveg fast mótaðar hefðir.  Við erum yfirleitt bara heima yfir páskana, förum í sund og kannski að ég fái vinkonur heim í bröns,“ segir Þorbjörg og brosir. 

Heimiliskötturinn dálítið grimmur í páskaskrautið

Aðspurð segist Þorbjörg skreyta heimilið fyrir páskana, á stílhreinan og einfaldan hátt. „Það standa skreyttar páskagreinar í vasa og ég kaupi gula túlípana á þessum tíma ársins. Og splæsi í gul kerti. En ég föndra ekki páskaskraut en í gegnum tíðina hafa stelpurnar komið heim með páskaskraut sem þær hafa föndrað í leikskólanum og seinna í skólanum. Sum þessara listaverka eru enn til og eru sett á borðstofuborðið. Annað skraut dætranna hefur látið lífið í samskiptum við heimilisköttinn Símon sem hefur verið dálítið grimmur í páskaskrautinu þó jólin séu hans besta hátíð hvað það áhugamál varðar,“ segir Þorbjörg og hlær enda heimiliskötturinn oft uppátækjasamur. 

Fallegar páskagreinar í vasa prýða heimilið.
Fallegar páskagreinar í vasa prýða heimilið. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður

Metnaðurinn að eiga páskaeggið mjög lengi, óopnað 

Hvað með páskaeggjaát, eigið þið fjölskyldan ykkar uppáhaldspáskaegg?

„Heimsmyndin er flóknari en áður var. Úrvalið er orðið svo mikið ég hef þurft að fara með glósur frá dætrunum í búðina. Ég kaupi páskaegg  af miða og í samræmi við fyrirmæli. Lausleg könnun heima fyrir segir að í ár verði keypt hefðbundið páskaegg, með saltkaramellu og eitthvað með lakkrís. Þegar Þorbjörg er spurð út í hvort hún eigi minningar frá páskunum á sínum bernskuárum segist hún vel eftir því hvað hún gerði við sín páskaegg. „Ég man eftir einhverjum furðulegum metnaði til að eiga páskaeggið mitt mjög lengi. Og að hafa látið það standa lengi óopnað. Það er hugmyndafræði sem ég hef kvatt fyrir löngu,“ segir Þorbjörg og brosir glettnislega.

Eftirminnilegasti málshátturinn?

Sko, ég gæti aldrei í lífinu munað hvaða málshættir hafa verið að detta inn í gegnum tíðina því ég man varla hvað ég var að gera í gær. En ég bar þessa spurningu undir Maríu Guðrúnu, 11 ára dóttur mína, sem segir að sá besti sé: „Enginn verður feitur af einum bita.“

Gul kerti og gulir túlípanar eru ómissandi á páskunum að …
Gul kerti og gulir túlípanar eru ómissandi á páskunum að mati Þorbjargar. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður

Páskalamb með Primadonnum og bernaise sósu 

Í matinn á páskadag ætlar Þorbjörg að bjóða upp á páskalamb með dýrindis Primadonnu kartöflum, mandarínu- og perusalati og heimalagaðri bernaise sósu. „Lambið útskýrir sig sjálft held ég. Það er bara fátt betra en íslenska lambakjötið og páskalambið auðvitað mjög víða á borðum um páskana. Lambafile varð fyrir valinu hjá okkur. Með lambinu eru rauðar smælki kartöflur sem eru vinsælar jafnt hjá manni sem dætrum mínum. Salatið var einhver viðleitni til að hafa það dálítið vorlegt og hér voru til bæði mandarínur og perur. Síðan erum við bara svo montin af bernaise sósunni okkar að það kom ekki annað til greina en að segja frá henni,“ segir Þorbjörg að lokum. 

Primadonnurnar hennar Þorbjargar, syndsamlega góðar og passa vel með bernaise …
Primadonnurnar hennar Þorbjargar, syndsamlega góðar og passa vel með bernaise sósunni. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður
Undursamleg þessi bernaise sem lögðu er að ást og natni …
Undursamleg þessi bernaise sem lögðu er að ást og natni tveggja í senn. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður
Þessa salat boðar vorið, ljúffengt og ferskt með mandarínum og …
Þessa salat boðar vorið, ljúffengt og ferskt með mandarínum og perum. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður

Páskalamb með Prímadonnu-kartöflum, mandarínu- og perusalati og bernaise sósu

Lambið

Ég held að það sé ekki ástæða til að segja Íslendingum hvernig á að elda lamb, en ég kaupi oft lambafile í Kjötbúðinni á Grensásvegi, ýmist hreint eða marínerað.

Primadonnur

Kartöflur með trufflu majónesi og Primadonnu osti

  • 1 kg rautt smælki
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ólífuolía og smjör eftir smekk
  • 1 stk. Primadonna ostur (rauður)
  • Trufflu majónes (kaupi Remia´s Legendary Mayonnaise Truffle)

Aðferð:

  1. Setjið kartöflur í eldfast mót. Makið þær í ólífuolíu og saltið og piprið eftir smekk.
  2. Skerið myndarlega sneið af smjöri niður í litla bita og raðið smjörbitunum svo ofan á kartöflurnar.
  3. Setjið kartöflurnar inn í ofn á grilstillingu og 200°C hita í 30-35 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar.
  4. Þegar þið eruð búin að taka kartöflurnar úr ofninum rífið gróft niður Prímadonna ostinn og dreifið ofan á kartöflurnar.
  5. Blandið saman með skeið. Smekksatriði hvað nota þarf mikinn ost, ágætt að miða við svona 2/3 hluta.
  6. Loks takið þið nokkrar matskeiðar af trufflu majónesi og blandið saman við kartöflurnar.
  7. Þessar kartöflur vinna enga fegurðarsamkeppni en slá alltaf í gegn.

Peru- og mandarínusalat

  • 2 pk. blandað salat
  • 2- 3 litlar perur
  • 3 mandarínur
  • ½ rauðlaukur
  • 1 pk. af valhnetum
  • Síróp
  • Skvetta af ólífuolíu

Aðferð:

  1. Rifið salatið niður í salatskál og setjið skvettu ólífuolíu yfir salatið.
  2. Léttristið hneturnar á pönnu í sírópi, eftir smekk.
  3. Afhýðið perurnar og skerið í litla bita.
  4. Afhýðið mandarínurnar og skerið í litla bita.
  5. Skerið rauðlaukurinn fínt niður.
  6. Blandið síðan öllu hráefninu í skál nema setjið hneturnar síðast ofan á salatið og kreistið að lokum smá safa úr mandarínu yfir salatið.

Páska-bernaise sósan, sem er auðvitað í gulum páskalit

  • 225 g smjör
  • eggj­ar­auður
  • 1 – 1 ½ msk. bernaise essence
  • 1 – 1½ tsk. estragon
  • 1 tsk. kjöt­kraft­ur (duft)

Aðferð:

  1. Bræðið smjör brætt í potti á væg­um hita. Smjörið á að bráðna ró­lega.
  2. Passið að smjörið verði ekki of heitt, því þá þurfið þið að kæla það. Hita­stigið á smjörinu á að vera það sama og á eggjarauðunum.
  3. Mik­il­vægt að eggj­ar­auðurn­ar séu við stofu­hita, þ.e. að hita­stigið á þeim og smjör­inu sé svipað.
  4. Hrærið eggj­ar­auður sam­an í stórri skál með þeyt­ara.
  5. Setjið skálina í heitt vatnsbað, gott að hafa skálina ofan í heitu vatni í eldhúsvaskinum.
  6. Þetta er tveggja manna samstarf, ann­ar písk­ar eggj­ar­auður í skál ofan í vatnsbaðinu og hinn hell­ir smjör­inu ró­lega út í. Mikilvægt að hrósa samstarfsmanni á meðan á verkinu stendur.
  7. Bætið síða essence, estragoni og kjöt­krafti sam­an við smjörblönduna og pískið saman sam­an við.
  8. Síðan er að smakka sósuna til og meta hvort meiri essence eigi að fara út í eða kjötkraftur.
  9. Sósan er best þegar samstarfið í eldhúsinu er þolinmótt. Rauðvín fyrir kokka með sósugerðinni er kostur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka