Nú standa páskarnir sem hæst og tækifæri til að bjóða í páskabröns í hádeginu. „Það er tilvalið að gefa sér tíma til að bjóða sínu besta fólki í góðan bröns. Það er svo notalegt að sitja saman og borða góðan mat og upp úr hádegi er sniðugt að bjóða upp á bröns og sitja að snæðingi fram að kaffitíma,“ segir Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar.
Girnilegar beikon- og eggjamuffins.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Berglind útbjó beikon- og eggjamuffins sem eru stjarnan á brönsborðinu hennar en síðan er svo margt einfalt sem hægt er að útbúa svo það fylgja nokkrar góðar hugmyndir frá Berglindi. Þessi bröns á líka vel við á sumardeginum fyrsta eða hvenær sem ykkur langar að gera vel við ykkar fólk.
Bröns heima í stofu
Fyrir 6 manns
- 6-10 stk. beikon- og eggjamuffins (sjá uppskrift að neðan)
- 2 pk. Ali beikon
- 6 stk. croissant
- 1 pk. silkiskorin skinka frá Ali
- 6 sneiðar gouda ostur
- Grísk jógúrtskál (grísk jógúrt að eigin vali, smá hlynsíróp, músli, kókosflögur, jarðarber, smá suðusúkkulaði)
- Ávextir í skál (melóna, kiwi, jarðarber, bláber, appelsína)
Aðferð:
- Steikið beikonið sem ekki á að nota í beikon- og eggjamuffins þar til það er stökkt.
- Útbúið beikon- og eggjamuffins.
- Setjið skinku og ost á croissant.
- Raðið saman í gríska jógúrtskál.
- Skerið niður ávexti.
Beikon- og eggjamuffins
- 6-10 Ali beikonsneiðar
- 6-10 egg
- Matarolíusprey
- Salt, pipar, chilliflögur eftir smekk
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C.
- Leggið beikonsneiðarnar á eldhúspappír á disk og setjið tvær arkir af pappír ofan á.
- Setjið í örbylgjuofn á hæstu stillingu í 2 ½ mínútu og fjarlægið þá pappírinn.
- Spreyið muffinsform úr áli að innan með matarolíuspreyi, setjið eina beikonsneið í hring í hvert hólf og brjótið eggið síðan í þá holu. Beikonið á að mynda nokkurs konar vegg í kringum eggið.
- Bakið í ofninum í 12-15 mínútur eftir því hversu vel þið viljið hafa eggið steikt.
- Losið með beittum hníf allan hringinn og lyftið síðan upp úr forminu, kryddið með salti, pipar og smá chilliflögum.
- Berið fram með öllum hinum kræsingunum og njótið.