Einfaldur ítalskur kjúklingaréttur borinn fram á pönnu

Ómótstæðilega girnilegur kjúklingaréttur sem þið eigið eftir að elska. Einfaldur …
Ómótstæðilega girnilegur kjúklingaréttur sem þið eigið eftir að elska. Einfaldur og allt eldað á einni pönnu, gerist ekki betra. mbl.is/Árni Sæberg

Þessi réttur er alger snilld fyrir huggulega kvöldstund með fjölskyldunni og kemur úr smiðju Margrétar Ríkharðsdóttir matreiðslumeistara og einn eigenda veitingastaðarins Duck & Rose. Hér er á ferðinni einfaldur ítalskur kjúklingaréttur og allt er eldað á einni pönnu.

Margrét Ríkarðsdóttir matreiðslumeistari og einn eigenda veitingastaðarins Duck & Rose …
Margrét Ríkarðsdóttir matreiðslumeistari og einn eigenda veitingastaðarins Duck & Rose á heiðurinn af þessum ómótstæðilega kjúklingarétti. Hún er snillingur að koma bragðlaukunum á flug. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi kjúklingaréttur er alveg það frábær að ég myndi elda hann fyrir matarboð og bjóða upp á gott vín með. Það tekur um 30-40 mínútur að útbúa réttinn og allt gert á einni pönnu sem er mesti kosturinn. Síðan er líka geggjað að eiga smá afgang í hádegismat daginn eftir,“ segir Margrét.

Einfaldur ítalskur kjúklingaréttur – borinn fram á pönnu

Fyrir 4-6

  • 600-800 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar( hægt að kaupa saxaða til þess að spara sér tíma)
  • 4 hvítlauksgeirar eða 1 heill hvítlaukur
  • 1 chili smátt skorið (má sleppa)
  • 2 stk. kjúklingakraftur
  • 2 msk. óreganó
  • 2 msk. timian
  • 1 msk. chili flögur
  • 200 g orzo pasta eða eftir smekk
  • 1 peli rjómi (250 ml)
  • Vatn 360 ml
  • Hveiti eftir þörfum
  • Salt og pipar  eftir smekk
  • 50 g parmesan-ostur
  • Ferskt basilíka eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C hita.
  2. Veltið kjúklingalærunum upp úr hveiti og steikið síðan á háum hita í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til þau verða gullinbrún.
  3. Kryddið til með salti og pipar.
  4. Merjið hvítlaukinn og skerið chili smátt á meðan.
  5. Setjið kjúklingalærin síðan á disk til hliðar.
  6. Hellið á pönnuna 2 matskeiðar af olíu, ég nota olíuna af sólþurrkuðu tómötunum.
  7. Setjið síðan orzo pastað út á pönnuna ásamt hvítlauk og chili leyfið að krauma á miðlungshita og hellið svo vatninu og rjómanum saman við.
  8. Skerið sólþurrkuðu tómatana í grófa bita.
  9. Setjið næst kjúklingakraftinn saman við vökvann á pönnunni og ásamt kryddunum.
  10. Hrærið aðeins í blöndunni og leyfið suðunni að koma upp og setjið þá kjúklinginn og sólþurrkuðu tómatana á pönnuna.
  11. Látið krauma í 5 mínútur við miðlungshita setjið svo hálfan poka (50 gr) af rifnum parmesan-osti yfir og bakið inn í ofni í 10 mínútur á 200°C hita.
  12. Takið úr ofninum og stráið ferskri basilíku yfir.
  13. Berið fram með klettasalatið og njótið vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert