Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Ágúst Reynisson veitingamaður á Grillmarkaðinum. Hann og konan hans leggja mikið upp úr því að borða hollan og góðan mat og matreiða hann frá grunni eins og hægt er. Vikumatseðillinni er í anda þess og lýsir vel þeirra venjum.
Ágúst, alla jafna kallaður Gústi, hefur verið viðloðandi við veitingahúsarekstur frá unga aldri. „Mig dreymdi um að opna veitingastað á unglingsárum og eftir það rættist, árið 2003 þegar ég opnaði Sjávarkjallarann, er ég búinn að vera djúpt sokkinn í þessum bransa. Ég er alltaf með nokkur verkefni í gangi í einu og nokkrar hugmyndir sem eru á í kortunum þannig að það er aldrei lognmolla kringum mig. Er búinn að sætta mig við að ég mun aldrei slaka á. Aðalverkefnið mitt er samt alltaf Grillmarkaðurinn og þessa dagana eru spennandi hlutir í gangi þar. Við erum núna að byrja á „Off Menu“ þar sem við ætlum að bjóða upp á Bjórnaut frá Hvammi í Ölfusi en nautin þar eru alin upp á bjór og hrati af bjór. Kjötið er með bjórkeim, meyrt og mikið fitusprengt. Gaman er að geta boðið upp á nýjungar og matseðillinn á Grillmarkaðinum er ávallt í stöðugri þróun.
Þessa dagana er ég einnig í skemmtilegu verkefni að opna pílustað í Kringlunni sem ber heitið „Oche“ og er staðurinn með starfstöðvar um allan heim. Síðan er ég með gæluverkefni í gangi í víninnflutningi en ítölsku Zenato vínin eru búin að slá í gegn fljúga þau úr hillum Vínbúðarinnar hér heima. En Zenato La Trattoria á Hafnartorgi er einmitt samstarfsverkefni vínbóndans Alberto Zenato og okkar og er frábært konsept sem hefur slegið í gegn. Bráðum munu farþegar í Keflavík geta notið þessa líka, en við munum opna þar í byrjun sumars,“ segir Gústi sem er orðinn spenntur að geta frumsýnt allar nýjungarnar sem eru í gangi.
„Mín fjölskylda elskar að borða góðan mat og ég og konan mín erum alltaf að reyna að borða hollan og einfaldan mat. Við skoðum mikið allar innihaldslýsingar á umbúðum og reynum að sleppa við unna matvöru eins og þegar við erum með „Taco“ kvöld þá útbúum oftast allt frá grunni sjálf. Ég tek áskoranir á hverju ári og nú er ég mikið fyrir að fasta, þá er eina reglan er að reyna borða ekki eftir klukkan 19.00 og svo stundum borða ég bara eina máltíð að dag. En á ferðalögum er allt leyfilegt. Þessi matseðill sem ég valdi lýsir svolítið okkar venjum,“ segir Gústi að lokum.
Mánudagur - Ofnbakaður lax
Þriðjudagur - Einfalt og fljótlegt kjúklingasalat
Miðvikudagur - Pönnusteikt rauðspretta með smælki
Fimmtudagur – Parmesamkjúklingur að hætti þingmannsins
Föstudagur - Kjúklingabauna taco með avókadó límónukremi og chilli
Laugardagur - Grillað nauta-ribeye með aspas og avókadósalsa
Sunnudagur - Lambalæri sem allir ráða við