„Beef tartar“ stútfullir af prótíni

„Beef tartar“ af betri gerðinni úr smiðju Hönnu keramiker og …
„Beef tartar“ af betri gerðinni úr smiðju Hönnu keramiker og matgæðings. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Ef þig vantar prótín þá er þessi réttur fyrir þig en hann er alls ekki fyrir alla. Hann er stútfullur af prótíni og bragðast ótrúlega vel, leikur við bragðlaukana á skemmtilegan hátt. Hanna Thordarson á heiðurinn af þessari uppskrift sem heldur úti uppskriftasíðunni Hanna en hún elskar „beef tartar“. Það má leika sér töluvert með hráefnin en öllu máli skiptir að vera með gæða kjöt.  Hanna segist stundum nota endann af nautalundinni (hausinn), en oftast fari hún eftir ráðleggingum fagaðila hvaða bita á að velja. Þeir mæla með nautafile sem er gott og ódýrara en lundin. Það sem er svo skemmtilegt við „beef tartar“ er að það má leika sér svolítið með það sem þú blandar saman við og eins hvaða meðlæti er boðið upp á. Hér kemur fyrsta útgáfa Hönnu af „beef tartar“ en hana má útbúa sem aðalrétt eða forrétt en lykilatriðið er að það sé fólk sem er fyrir kjöt sem er að setjast að borðum.

Nokkur atriði sem vert er að hafa huga þegar unnið er með hrátt kjöt:

  • Hreinlæti þar sem við erum að handfjatla hrátt kjöt.
  • Nota íslenskt gæðakjöt – skera frá sinar og fitu.
  • Til að forðast bakteríur er meginreglan sú að geyma kjötið í kæli og jafnvel að skella því aðeins í frystinn (með því að hafa kjötið hálffrosið er auðveldara að skera það niður).  Kjötið er því ekki látið standa lengi í stofuhita.
  • Ekki fyrir ófrískar konur.

„Beef tartar“ að hætti Hönnu

  • 150–160 g íslenskt nautakjöt eins og nautafile eða nautalund
  • 1 tsk. kapers – saxað
  • 10 þunnar sneiðar af chili, má svo skera í tvennt
  • 2 tsk. olía
  • 2 tsk. majónes
  • 1–2 msk. skarlottulaukur, saxaður smátt
  • Aðeins af dijon sinnepi, á hnífsoddi
  • Parmesanostur, rifinn fínt (má sleppa ef vill)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Þeir sem vilja fara alla leið geta toppað með einni eggjarauðu.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera kjötið niður smátt. Það eru til ýmsar leiðir, sumir skera það fyrst langsum og svo hvern bita aftur langsum og síðan þvert í litla bita. Það er smekksatriði hversu fínt kjötið er saxað niður. Það má alveg gera töluvert áður en kjötið er borið fram en þá skiptir máli að geyma það í lokuðu íláti í kæli. Best að taka kjötið úr kæli aðeins áður en það er borið fram svo að það nái stofuhita.
  2. Blandið saman olíu, majónesi, kapers, chili, sinnepi og skarlottulauk í skál.
  3. Hrærið kjötið saman við stuttu áður en það er borið fram (rétturinn má alveg bíða í klukkustund tilbúinn inni í kæli).
  4. Það getur verið fallegt að setja hringmót á diskinn og kjötið ofan í það, þrýsta svo aðeins á. Þegar hringurinn er fjarlægður er fallegur forréttur eða aðalréttur á disknum, einn skammtur í 6 cm hringmóti er u.þ.b. 37 g.
  5. Að lokum stráið vel yfir af rifnum parmesanosti (má sleppa ef vill) ásamt pipar og saltflögum.
  6. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert