Hér er á ferðinni ómótstæðilega girnileg fyllt kartafla með stilton-osti, parmesanosti og sprettum. Þetta er í raun heil máltíð en það má líka hafa kartöfluna sem meðlæti. Engu að síður er hún mjög saðsöm og dugar vel ein og sér. Heiðurinn af þessari uppskrift á Nanna Rögnvaldar, uppskriftahöfundur og rithöfundur með meiru, en uppskriftina birti hún á uppskriftasíðu sinni Konan sem kyndir ofninn sinn. Þar er um auðugan garð að gresja af uppskriftum sem gaman er að leika eftir og jafnvel gera að sínum.
Rambókartafla
Fyrir 1
- 1 bökunarkartafla, meðalstór
- 1 msk. ólífuolía
- Pipar og salt
- 2–3 msk. stilton-ostur, gráðostur eða annar ostur að eigin vali, mulinn
- Sinnepssprettur eða kryddjurtir eftir smekk
- 2–3 msk. rifinn parmesanostur
- Væn lófafylli af rambósprettum (radísusprettum) eða öðrum sprettum, kryddjurtum eða salatblöðum eftir smekk
Aðferð:
- Takið til eina bakaða kartöflu og pikkið nokkrum sinnum í hana með gaffli á öllum hliðum, setji hana í lítið eldfast mót.
- Hellið 1 matskeið af ólífuolíu yfir kartöfluna í eldfasta mótinu og veltið kartöflunni upp úr olíunni og kryddið til með pipar og salti eftir smekk.
- Hitið ofninn í 200°C hita og setji fatið í ofninn og bakið kartöfluna í um það bil klukkutíma.
- Þegar kartaflan er búin að bakast í klukkustund ætti hún að vera meyr í gegn og hýðið stökkt. Látið hana bíða í nokkrar mínútur og skerið svo djúpan kross ofan í hana og ýtið með fingurgómunum á alla fjóra fjórðungana til að opna hana.
- Hitið ofninn í 225°C hita til að setja kartöfluna inn aftur eftir að hafa fyllt hana.
- Myljið ostinn, sem þið viljið nota, ofan í kartöflukrossinn, um það bil 2–3 matskeiðar.
- Stráið síðan sprettum af eigin vali yfir kartöfluna eftir smekk.
- Stráið næst ofan á þetta 2–3 matskeiðum af parmesanosti.
- Setjið síðan kartöfluna aftur inn í ofninn á 225°C hita og bakið í 12–15 mínútur, eða þar til parmesanosturinn er bráðinn og farinn að taka góðan lit.
- Takið þá kartöfluna úr ofninum og setjið hana á disk.
- Stráið síðan rambósprettum, radísusprettum, allt í kring og ofan á, eins og kartaflan verði hálfgert salat.
- Hægt er að borða kartöfluna bara eina sér en hún getur auðvitað líka verið meðlæti.
- Það má bera fram smjör eða góða ólífuolíu með ef vill.