Æsispennandi forkeppni um Kokk ársins fram undan

Spennandi keppni framundan næstu daga, fyrst forkeppnin fyrir Kokk ársins …
Spennandi keppni framundan næstu daga, fyrst forkeppnin fyrir Kokk ársins 2024 og stóri dagurinn verður síðan á laugardaginn þar sem keppt verður um Kokk ársins og Grænmetiskokk ársins 2024. Samsett mynd

Nú líður senn að keppninni um Kokk ársins og Grænmetis kokk ársins 2024 og spennan er í hámarki þessa dagana. Keppendur standa í ströngu og æfa stíft enda vilja þeir allir hampa þessum titlum.

Báðar keppnirnar fara fram í versluninni IKEA en þar er búið að setja upp keppniseldhús sérstaklega fyrir keppnirnar. Forkeppni í Kokk ársins fer fram á morgun, fimmtudaginn 11. apríl  og úrslitakeppnin laugardaginn 13. apríl næstkomandi. Einungis fimm komast áfram í úrslitakeppnina. Keppnin um Grænmetiskokk ársins fer fram föstudaginn 12. apríl næstkomandi og úrslit úr báðum keppnunum verða kunngjörð á laugardagskvöldið.

Mikið líf og fjör var á keppninni í fyrra og …
Mikið líf og fjör var á keppninni í fyrra og ilmurinn lokkandi í IKEA. Samsett mynd

Klúbbur matreiðslumeistara stendur fyrir keppninni

Það er Klúbbur matreiðslumeistara sem hefur staðið fyrir keppninni um Kokk ársins frá árinu 1994, þá hét keppnin Matreiðslumaður ársins. Þórir Erlingsson matreiðslumeistari er forseti klúbbsins og hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur og mánuði ásamt meðlimum klúbbsins að undirbúningi keppninnar. „Bjarki Hilmarsson matreiðslumeistari hefur séð um framkvæmd keppninnar frá upphafi ásamt tugum félaga í KM. Nú í ár stöndum við fyrir tveimur keppnum, því ásamt Kokk ársins er líka keppnin um Grænmetiskokk ársins,“ segir Þórir.

Hvert er markmið klúbbsins með því að standa að keppnin sem þessari? 

„Íslenskir matreiðslumenn eru í fremstu röð í keppnismatreiðslu í heiminum, og til að velja keppendur í erlendar keppnir þarf að vera landskeppni.  Keppnin er einnig notuð til að kynna fagið.

Dómnefndinni bíður ærið verkefni og sérvalið lið skipar dómnefndina sem mun skera úr um hverjir hljóta þessa eftirsóttu titla í ár. „Það eru margir færir fagmenn sem koma að dómgæslunni, yfirdómari keppninnar er Ben Weber en hann kemur frá Lúxemborg. Ben dæmdi á Ólympíuleikunum í Stuttgart sem haldnir voru í febrúar síðastliðinn en það gerði einnig Bjarni Gunnar Kristinsson sem einnig á sæti í dómnefndinni. Einnig má nefna að margir þeir sem unnið hafa keppnina um Kokk ársins í gegnum tíðina koma að dómgæslunni en í heild eru það hátt í 20 matreiðslumenn sem koma að dómgæslu bæði sem smakkdómarar og eldhúsdómarar.

Hvernig fer keppni fram?  

„Í báðum keppnum þurfa keppendur að elda þriggja rétta máltíð fyrir 12 manns.  Keppt er í sérútbúnum keppniseldhúsum í IKEA og geta gestir IKEA fylgst með keppninni á staðnum allan tímann,“ segir Þórir og bætir við að mikil stemning sé ávallt meðan á keppninni stendur bæði innan og utan búrsins. Þegar kemur að hráefnavalið þá er það að hluta búið að ákveða fyrir fram. „Það eru ákveðin hráefni sem keppendur verða að nota, svo geta þeir notað önnur hráefni til að styðja við þau meginhráefni sem skylda er að nota.“

Hvað þarf Kokkur ársins til brunns að bera til að geta fengið þennan titil?

„Kokkur ársins þarf ekki bara að geta eldað góðan mat heldur þarf hann líka að halda eldhúsinu snyrtilegu allan tímann sem og hugsa um næringargildi og heilnæmi matarins sem þeir bera fram.“

Verðlaunafé og kemst á stall með bestu matreiðslumönnum landsins

Hver eru sigurlaunin?

Sigurvegarinn fær ásamt því að geta titlað sig Kokk ársins, 300.000,- króna verðlaunafé og keppnisrétt í keppninni Matreiðslumaður Norðurlandanna. Sá sem sigrar hefur auk heiðursins komið sér á stall með mörgum af bestu matreiðslumönnum landsins. Það er ekki auðvelt að vinna þessa keppni og ég held að mér sé óhætt að segja að það að vinna keppnina komi vinningshafanum á stað þar sem hann getur að mörgu leyti stjórnað hvað hann fær út úr sigrinum,“ segir Þórir. 

„Ég vil hvetja fólk til að koma við i IKEA á föstudag og laugardag til að fylgjast með þessu frábæra fagfólki. Á veitingastöðum landsins starfa frábærir fagmenn sem halda þeim í fremstu röð og það er ekki síst fyrir keppnir eins og Kokk ársins ásamt tilvist Kokklandsliðsins sem hefur með því fremsta í heiminum,“ segir Þórir að lokum.

7 keppa í forkeppninni á morgun

Að þessu sinni eru 7 keppendur sem munu keppa í forkeppninni um Kokk ársins 2024 og fimm munu komast áfram í úrslitakeppnina á laugardaginn næstkomandi:

  • Kokkur ársins 2024, Wiktor Pálsson, Speilsalen
  • Kokkur ársins 2024, Ísak Aron Jóhannsson, Zak veitingar
  • Kokkur ársins 2024, Gudmundur Halldor Bender, Flóra veitingar
  • Kokkur ársins 2024, Hinrik Örn Lárusson, Lux veitingar
  • Kokkur ársins 2024, Hinrik Örn Halldórsson, Flóra veitingar
  • Kokkur ársins 2024, Angela, Fjölsmiðjan
  • Kokkur ársins 2024, Bjarni Ingi Sigurgíslason, Kol                          

Fimm munu keppa um titilinn Grænmetiskokkur ársins 2024

  • Grænmetiskokkur ársins 2024, Bjarki Snær Þorsteinsson, Lux Veitingar
  • Grænmetiskokkur ársins 2024, Bjarni Haukur Guðnason, Hvíta húsið
  • Grænmetiskokkur ársins 2024, Kristján Þór Bender Eðvarðsson, Bláa lónið
  • Grænmetiskokkur ársins 2024, Þórarinn Eggertsson, Smakkveitingar
  • Grænmetiskokkur ársins 2024, Monica Daniela Panait, Hótel Geysir
Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari var krýndur Kokkur ársins 2023.
Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari var krýndur Kokkur ársins 2023. Ljósmynd/Mummi Lú

Sindri Kokkur ársins 2023

Í fyrra bar Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari sigur úr býtum en hann á og rekur veisluþjónustuna Flóru ásamt Sigurjóni Braga Geirssyni. Sindri er á leið til Lyon, í Frakklandi, á næsta ári til að taka þátt í frægustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d´Or.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert