Hjónin Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson, stofnendur og eigendur Olifa, sem hafa búið á Ítalíu 16 ár hafa verið iðin við að bjóða upp á og flytja inn ítalskar matvörur og kræsingar. Þau eru ekki bara að flytja inn ítalskar vörur fyrir pasta- og pítsagerð ásamt sælkeravörum heldur flytja þau líka inn appelsínur beint af akrinum.
„Þetta er núna þriðja árið í röð sem við bjóðum upp á appelsínurnar og það er frábært hvað viðskiptavinir okkar hafa tekið vel í þennan árlega viðburð sem er orðin hefð hjá okkur. Það er óhætt að segja að margir telji niður dagana í fyrstu sendingu og hlakki til að fá árlegu Belladonna uppskeruna til landsins og njóta vel,“ segir Ása og brosir.
Belladonna appelsínurnar koma frá Calabríuhéraði á Suður-Ítalíu. Þær vaxa villtar í náttúrunni og er engin efnameðferð notuð sem útskýrir misfallegt útlit þeirra og stuttan líftíma. Börkurinn er því ætur og því alveg frábært að nota hann í til að mynda bakstur, matargerð og í kokteila.
„Uppskeran í ár er frábær. Appelsínurnar eru safaríkar með eindæmum, dúnmjúkar og sætar og að mestu steinalausar. Við náðum að bæta við einni auka sendingu þar sem eftirspurnin er svo mikil en svo koma þær ekki aftur fyrr en trén hafa gefið af sér nýjan ávöxt að ári liðnu,“ segir Ása og er ávallt jafn spennt þegar von er á uppskeru í hús. Gaman er að geta þess Olifa hunangið kemur af sömu appelsínutrjám sem er falleg tenging en hunangið hefur notið mikilla vinsælda hér á landi.
Sendingin sem um ræðir er væntanleg í verslanir Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag í morgunsárið og til landsbyggðarinnar seinnipartinn.