Þegar fermingarveislu skal gjöra er margt sem þarf að hafa í huga, hvað varðar val á veitingum, þema og að persónuleiki fermingarbarnsins fái að njóta sín. Sylvía Sigrún Eðvarðsdóttir fermdist í Árbæjarkirkju 24. mars síðastliðinn og í tilefni þess bauð hún til veislu ásamt foreldrum sínum, sem var í hennar anda.
Hún fékk að ráða þemanu í veislunni og koma með sínar tillögur að veitingum. Einnig valdi hún fermingarkjólinn sinn sjálf og út frá litunum í honum voru litir veislunnar hafðir í forgrunni.
„Dagurinn var bjartur og fallegur, athöfnin dásamleg og veislan vel heppnuð í alla staði,“ segir Sylvía Sigrún og brosir sínu fallega brosi.
Sylvía Sigrún er einstaklega skipulögð og hafði ánægju af því að undirbúa veisluna með fjölskyldum sínum.
„Ég var búin að ákveða dagsetninguna með góðum fyrirvara, bæði til að geta fermst sama dag og vinkonur mínar í skólanum og líka til að vera viss um að fá sal fyrir veisluna. Varðandi veitingar í veislunni vildi ég hafa smárétti og það eina sem ég var búin að ákveða var að hafa kjúklingaspjót með satay-sósu. Kokkurinn hjálpaði okkur svo að fá hugmyndir fyrir hina réttina, en ég vildi hafa eitthvað einfalt, bragðgott og girnilegt. Ég bauð upp á smáhamborgara, gömlu góðu týpuna, með osti, hamborgarasósu, gúrku, tómötum og káli. Einnig vorum við með kjúklinga-taco með ananas-salsa, djúpsteikt blómkál með kóreskri BBQ-sósu, tómata og carpaccio á crostini, nýbakað foccacia með pesto og mini-pizzur. Eftir matinn buðum við upp á kaffi, kökur og sæta bita. Stjúpmamma mín gerði rosalega fallega og bragðgóða rice krispies-kransaköku og steikti alvöru íslenskar pönnukökur. Mamma mín bakaði sítrónukökur og svo fengum við Gulla Arnar til að gera svakalega súkkulaðiköku og sæta bita sem slá alltaf í gegn,“ segir Sylvía.
Aðspurð segir Sylvía Sigrún að undirbúningurinn fyrir fermingarveisluna hafi hafist fyrir alvöru í janúar, febrúar á þessu ári. „Ég þurfti að bóka hárgreiðslu, neglur, finna rétta kjólinn og skó, skartgripi, bóka myndatöku og finna rétta staðinn fyrir fermingarmyndatöku. Svo small þetta allt saman á síðustu vikunum fyrir fermingardaginn. Ég fékk mikla hjálp frá fjölskyldunni minni við að gera daginn fullkominn, meira að segja amma mín og afi fundu rosalega fallegt hálsmen og kross á Tenerife.“
Þegar kom að því að velja þema veislunnar var Sylvía Sigrún með á hreinu hvað hana langaði að hafa enda mikill fagurkeri.
„Ég vildi velja litaþemað út frá kjólnum, þannig að fyrsta skrefið var að finna hann. Ég fann fullkominn, lítið notaðan kjól frá Yeoman með fjólubláu og grænu mynstri og þá voru litirnir fundnir; hvítur, fjólublár og að sjálfsögðu gyllt með. Við fórum í Partýbúðina og völdum skraut, blöðrur, dúka og renninga. Þar var hægt að fá allt til að gera veisluna akkúrat eins og ég hafði hugsað mér. Á leigunni hjá Partýbúðinni bókuðum við líka myndaskjá (selfie booth) og fallegan bakgrunn. Það sló í gegn. Við fengum líka skrautboga sem við skreyttum með blöðrum og blómum. Ég fékk blómin í Blómagalleríi en þau voru einföld og látlaus; grænar greinar og hvítt brúðarslör, mér þykir það svo fallegt. Fermingarkertið og gestabókina gerðu Karmelnunnurnar í Hafnarfirði fyrir mig, það kom einstaklega fallega út í gylltu og fjólubláu.“
Sylvíu Sigrúnu langaði að vera búin að fara í fermingarmyndatöku fyrir stóra daginn til að geta sýnt þær í veislunni og það gekk eftir.
„Ég átti tíma í prufugreiðslu 10 dögum fyrir fermingardaginn og nýtti tækifærið til að taka fermingarmyndir og myndir með fjölskyldunni. Alma Hlín hjá Mio Mio greiddi mér og Telma Haraldsdóttir tók myndirnar og ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna. Við fengum fallegan dag í Hörpu og Telma tók æðislegar myndir af okkur,“ segir Sylvía og bætir við að myndirnar séu dýrmætar minningar.
Þegar Sylvía Sigrún er spurð hvaða henni hafi fundist standa upp úr var hún með það á hreinu. „Það sem stóð upp úr á fermingardaginn var hversu fallegur dagurinn var og hversu margir sáu sér fært að mæta og fagna með mér. Þetta var svo skemmtilegur dagur og gaman að útkoman hafi verið svona flott,“ segir Sylvía Sigrún sem má svo sannarlega vera ánægð með útkomuna enda gullfalleg fermingarveisla sem hún og fjölskylda hennar buðu vinum og vandamönnum upp á.